Úr tamningunum yfir í tónlistina

Brynhildur Oddsdóttir hefur lært tamningar, söng, gítarleik og tónsmíðar.
Brynhildur Oddsdóttir hefur lært tamningar, söng, gítarleik og tónsmíðar. Ljósmynd/Eva Rut Hjaltadóttir

Tónlistarkonan Brynhildur Oddsdóttir sendi fyrir skemmstu frá sér plötuna Burning Heart. Brynhildur er í fararbroddi Beebee and the bluebirds og leikur á rafmagnsgítar, syngur og semur tónlistina. Hún er vel menntuð í tónlist og hefur lokið tónsmíðanámi, söngnámi og er komin langt í námi í rafgítarleik við FÍH. Það kann því að koma á óvart að þessi stelpa sé menntuð tamningakona líka.

Það er ljóst, eftir tiltölulega stutt spjall, að tónlistarkonan Brynhildur Oddsdóttir hefur fjölmargt fyrir stafni og býr yfir ótakmarkaðri lífsorku auk smitandi lífsgleði sem er sannarlega mikill kostur hvar sem er í lífinu sjálfu. Hún er rúmlega þrítug og hefur gert býsna margt þrátt fyrir ungan aldur. „Ég er menntuð tamningakona og hef verið að temja í mörg ár,“ segir Brynhildur sem lærði tamningar á Hólum í Hjaltadal og lauk náminu þar fyrir um áratug.

Söngnám með tamningunum

Tónlistin hefur alltaf ómað innra með Brynhildi og lærði hún á fiðlu sem barn og var grunnurinn því lagður snemma. „Ég hafði samt lítið gert af því að syngja og það var ekki fyrr en ég fór að læra söng eftir að ég kláraði Hóla sem ég fór alveg út í tónlistina,“ segir hún. Samhliða tamningunum stundaði hún söngnámið af kappi. Hún er enn í hestamennskunni en ekki leið á löngu þar til tónlistin varð aðalatriðið og hestarnir þurftu að víkja. „Tónlistin hefur tekið yfir og það hefur verið nóg að gera,“ segir Brynhildur og það skýrir sig sjálft þegar tónlistarferillinn er skoðaður nánar. „Tónsmíðaáhuginn kviknaði í söngnáminu í Nýja tónlistarskólanum og ákvað að sækja um í Listaháskólanum, í tónsmíðanám. Ég komst inn þar og það voru alveg frábær ár sem ég átti þar frá 2008 til 2011,“ segir Brynhildur sem lauk BA-prófi í tónsmíðum árið 2011. Samhliða tónsmíðanáminu lærði hún klassískan söng og tók burtfararpróf á sama tíma og hinu náminu lauk. Það er ekki þar með sagt að tónlistarnáminu hafi þar með verið lokið. Síður en svo og því er enn ekki lokið. Árið 2011 hófst nám Brynhildar í gítarleik við FÍH og er hún enn við nám þar. Fyrst var Hilmar Jensson kennarinn hennar og svo tók Andrés Þór við. „Báðir eru þeir frábærir gítarleikarar og frábærir kennarar.“

Svo lengi lærir sem lifir

Brynhildur hefur óbilandi áhuga á öllu sem tengist tónlistinni og eins og dæmin hér að ofan sýna er hún órög við að prófa eitthvað nýtt. Hún hefur að undanförnu verið að læra djasssöng og næsta vor lýkur hún burtfararprófinu. „Ég ætla mér ekkert að hætta að læra. Þetta hjálpar mér svo mikið í tónsmíðunum. Mörg af lögunum á nýju plötunni samdi ég eftir að ég byrjaði í FÍH. Það er til dæmis margt í djassinum sem ég vil setja í tónlistina mína þó hún sé ekki beint djass heldur er hún undir djass- og blúsáhrifum,“ segir Brynhildur en nánar er fjallað um plötuna í ramma hér til hliðar. Hinar ýmsu tónlistarstefnur höfða til Brynhildar og því einskorðast tónsmíðarnar ekki einungis við blús- og djassáhrif.

„Mér finnst til dæmis smjög spennandi að semja klassísk tónverk. Að semja fyrir strengjasveitir og slagverk þykir mér mjög skemmtilegt,“ segir Brynhildur sem vann einmitt lokaverkefni í Listaháskólanum sem var á mörkum klassíkur og popps. „Mér finnst skemmtilegt þegar verið er að tengja stefnurnar saman,“ segir tónlistarkonan Brynhildur Oddsdóttir sem kemur meðal annars fram á tveimur stöðum í tengslum við Airwaves-tónlistarhátíðina. Annars vegar á sviði við Bæjarins bestu klukkan 17.30 á föstudaginn og hins vegar á ION hóteli á Nesjavöllum á laugardaginn klukkan 18.15.

Það er því fjölmargt framundan hjá Brynhildi sem auk þess að kynna plötuna og ljúka prófum í rafgítarleik og djasssöng kennir tónfræði við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Plata hennar Burning Heart er fáanleg í verslunum Eymundsson, Skífunni og á vefnum www.tonlist.is.

Beebee and the bluebirds

Með Brynhildi í Beebee and the bluebirds leika afbragðs tónlistarmenn. Tómas Jónsson leikur á píanó, Brynjar Páll Björnsson á bassa og Ásmundur Jóhannsson á trommur. Gítarleikurinn er í höndum Brynhildar sjálfrar sem einnig syngur og semur lögin. Platan Burning Heart kom út í síðasta mánuði og inniheldur lög og texta eftir Brynhildi. Hún segist gjarnan fá innblástur úr kvikmyndum og sögum, einkum og sér í lagi fyrir lagatextana.
Auk þess byggjast þeir á hennar eigin reynslu. Hún segir að lögin verði til með ýmsum hætti, til dæmis ómar oft laglína í kollinum og verður síðar að lagi. Stundum koma hljómarnir þó á undan laglínunni. Á því er allur gangur.
Brynhildur Oddsdóttir.
Brynhildur Oddsdóttir.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert