Verður vísað úr Íslandsmótinu

Liðinu verður að óbreyttu vísað úr Íslandsmótinu.
Liðinu verður að óbreyttu vísað úr Íslandsmótinu. mbl.is

Körfuknattleiksliði Vals í 7. flokki stúlkna verður vísað úr Íslandsmótinu, þar sem stúlkurnar munu að óbreyttu ekki mæta til leiks á móti sem fram fer á Egilsstöðum helgina 15.-16. nóvember næstkomandi. Mánudaginn 17. nóvember hefur skólinn þeirra, Hlíðaskóli, skipulagt fimm daga ferð fyrir 7. bekk á Reyki í Hrútafirði, en foreldrar stúlknanna telja of stutt á milli ferðanna auk þess sem kostnaðurinn af þeim er verulegur.

„Það er fyrirfram plönuð mótadagskrá yfir allan veturinn, sem við fáum afhenta hjá Val í september, fyrir mánuði síðan. Þá sjáum við hvenær næstu umferðir í Íslandsmótinu fara fram. Og við sáum að það væri mót þarna 15.-16. nóvember. En við fáum ekki að vita fyrr en núna um helgina að það eigi að fara fram á Egilsstöðum,“ segir foreldri stúlku í Valsliðinu.

Ferðin að Reykjum var ákveðin í sumar og auglýst á skólasetningu í ágúst en hún kostar 25 þúsund krónur og lagt verður af stað kl. 8 á mánudagsmorgni. Foreldrum hugnaðist illa sú tímaþröng sem stúlkurnar yrðu settar í ef þær kæmu þreyttar heim af móti að kvöldi sunnudags og legðu í aðra langferð morguninn eftir, auk þess sem viðbótarkostnaðurinn er einhverjum hreinlega ofviða.

Eftir umræður í flokknum óskaði þjálfari stúlknanna eftir því við Körfuknattleikssamband Íslands að þær fengju að gefa frá sér leikina á Egilsstöðum. „Þetta eru þrír leikir sem eiga að fara fram og ef þær gefa frá sér leiki þá bara þýðir það að þær lýsa yfir að þær tapi þeim,“ segir foreldrið, sem vill ekki koma fram undir nafni.

Þjálfarinn fékk þau svör að samkvæmt reglugerð yrði liðið sektað og vísað úr Íslandsmótinu ef það mætti ekki í tvo leiki á sama móti. Í reglugerðinni er vísað til þess að gildar ástæður, að mati mótsnefndar, verði að liggja til grundvallar því að lið sæti ekki refsingum, en ástæður foreldranna um kostnað og knappan tíma voru ekki teknar gildar af KKÍ.

Reiðar og sárar

Foreldrið sem mbl.is ræddi við sagði stúlkurnar reiðar og sárar vegna svara KKÍ. Þær hafi lýst þeirri afstöðu að þær muni örugglega fá annað tækifæri til að keppa á Egilsstöðum en ekki til að fara í skólabúðir að Reykjum.

„Þetta eru rosalega harkaleg viðbrögð og harkalegar reglur. Þessi börn eru ekki í NBA. Þau eru bara í íþróttum að reyna að hafa gaman og maður spyr bara: hvar er íþróttaandinn?“

Foreldrar stúlknanna telja ástæður sínar gildar; þeir treysti sér ekki til að senda stúlkurnar austur. Málið hefur mikið verið rætt í þeirra hópi og meðal þeirra ríkir samstaða.

„Við höfum verið að ræða það hvað við getum gert. Hvort við gætum sent sex stelpur á mótið og tekið sameiginlega þátt í að senda þær; farið í einhverja massíva fjáröflun þannig að allur peningur sem kæmi inn myndi fara í að senda þær austur. En flug austur og til baka kostar alveg 27 þúsund krónur á mann, þannig að þetta eru alveg gríðarlegir peningar.“

Foreldrið hefur áhyggjur af því að framtíð liðsins sé í hættu. „Ef börn fá engar áskoranir aðrar en að mæta á æfingar, og fá ekki að spreyta sig í keppni, þá þroskast þau ekki sem leikmenn. Ég efast um að margar stúlknanna haldi áfram að æfa í vetur ef liðinu verður vísað úr Íslandsmótinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert