Boðað til verkfalls annað prófatímabilið í röð

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Stúdentaráð Háskóla Íslands segir ljóst er að ef til verkfalls Félags prófessora kemur muni það lama stærsta vinnustað landsins. „Ef stjórnvöld semja ekki við prófessora er staðan óboðleg fyrir nemendur háskólans en niðurskurður síðustu sex ára hefur valdið því að boðað hefur verið til verkfalls annað próftímabilið í röð,“ segir í yfirlýsingu frá Stúdentaráði.

„Verkfall á þessum viðkvæma tíma er ekki í þágu nemenda en til langtíma litið er það öllum í hag að byggja upp háskóla sem eftirsóknarvert er að starfa við. Það er hagur nemenda að kjör prófessora standist samanburð við aðra háskóla. Þess vegna er það skýr krafa Stúdentaráðs að gengið sé að samningaborðinu.“

Hugur Stúdentaráðs er hjá stúdentum, segir í yfirlýsingunni, „en fyrirhugað verkfall hefur slæm áhrif á áætlanir og framfærslugetu námsmanna. Óvissan sem því fylgir, að vita ekki hvort eða hvenær prófað verði úr námskeiði hefur ein og sér slæmar afleiðingar fyrir nemendur. Ofan á hana leggst sú staðreynd að námslán verða ekki greidd út á réttum tíma, fyrir stóran hluta námsmanna, ef til verkfalls kemur. Námsmenn sem margir hverjir eru barnafólk, fengju ekki greidd námslán og eiga því á hættu að geta ekki séð fyrir sér og sínum.

Það er í alla staði ótækt ástand að stærsti vinnustaður landsins lamist. Ennfremur er það bagalegt að samningsaðilar fundi jafn sjaldan og raun ber vitni. Stúdentaráð krefst þess af samningsaðilum að þeir sýni ábyrgð, hafi hag nemenda í huga og fundi daglega framvegis, svo leysa megi deilurnar og afstýra verkfalli. Nemendur geta ekki unað við verkfall, eyðið óvissuástandinu strax.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert