Skora enn á Sigurð Inga vegna Fiskistofu

Fiskistofa er í þessu húsi við Dalshrauni 1 í Hafnarfirði.
Fiskistofa er í þessu húsi við Dalshrauni 1 í Hafnarfirði. mbl.is/Árni Sæberg

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar ítrekar áskorun sína til ríkistjórnarinnar og Sigurðar Inga Jóhannessonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að draga á ákvörðun um flutning Fiskistofu til baka.

Segir bæjarstjórnin að þar sem málefnaleg rök fyrir flutningnum hafi ekki komið fram og fyrirliggjandi tölur sýni að stöðugildum á vegum ríkisins á höfuðborgarsvæðinu hafi fækkað ólíkt því sem haldið hefur verið fram í umræðunni. Þetta kemur fram í ályktun sem bæjarstjórnin hefur sent frá sér. 

Segir umræðu um stöðugildi villandi

Í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ kemur fram að á fundi Bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í dag hafi verið lögð fram ítarleg greinargerð um stöðugildafjölda hjá ríkisstofnum á höfuðborgarsvæðinu 2007 – 2013. Þar komi fram að að stöðugildum á vegum ríkisins á höfuðborgarsvæðinu hafi fækkað um 464 á árunum frá 2007 til 2013. Þar af hefur stöðugildum í Hafnarfirði fækkað um 128 eða 28% af þeirri fækkun sem orðið hefur á höfuðborgarsvæðinu.

Haft er eftir Haraldi L. Haraldssyni bæjarstjóra að í ljósi þessara gagna hljóti sjávarútvegsráðherra að skoða það alvarlega að draga ákvörðun sína um flutning á Fiskistofu til baka.

„Umræðan um  fjölda stöðugilda á höfuðborgarsvæðinu hefur verið villandi og með þessari samtekt sem lögð var fram í  bæjarstjórn Hafnarfjarðar dag kemur það skýrt í ljós að stöðugildum hjá ríkinu á höfuðborgarsvæðinu og í Hafnarfirði hefur fækkað umtalsvert,“ er haft eftir Haraldi í tilkynningu. 

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti á fundinum á ítreka áskorun sína á ríkistjórnina og Sigurð Inga Jóhannesson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að draga á ákvörðun um flutning Fiskistofu til baka þar sem málefnaleg rök fyrir flutningnum hafa ekki komið fram og tölur sýna að stöðugildum á höfuðborgarsvæðinu og í Hafnarfirði hefur fækkað.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur áður mótmælt þeim áformum ráðherra að flytja starfssemi Fiskistofu úr Hafnarfirði og gert kröfu um að ráðherrann leggi fram málefnaleg rök fyrir flutningunum. 

Eftirfarandi ályktun var samþykkt:

„Í ljósi þeirra gagna sem nú liggja fyrir um fjölda stöðugilda hjá ríkisstofnunum á höfuðborgarsvæðinu 2007 -2013, ítrekar Bæjarstjórn Hafnarfjarðar áskorun sína á ríkistjórnina og Sigurð Inga Jóhannesson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að draga á ákvörðun um flutning Fiskistofu til baka þar sem málefnaleg rök fyrir flutningnum hafa ekki komið fram og fyrirliggjandi tölur sýna að stöðugildum á vegum ríkisins  á höfuðborgarsvæðinu hefur fækkað ólíkt því sem haldið hefur verið fram í umræðunni."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert