60% með háþrýsting

Heilbrigðisstarfsmaður les stöðuna.
Heilbrigðisstarfsmaður les stöðuna. Ljósmynd/Hjartaheill - SÍBS

Yfir 60% þeirra sem þáðu ókeypis mælingu á blóðþrýstingi, blóðsykri, blóðfitu og súrefnismettun hjá Hjartaheill og SÍBS síðustu  helgi reyndust vera með háþrýsting. Um var að ræða 532 einstaklinga af 866, en af þeim sem mældust með háþrýsting voru 48 á hættusvæði.

Í samskonar átaki á síðasta ári, þar sem 700 voru mældir, reyndist sama hlutfall með of háan blóðþrýsting. „Hjúkrunarfræðingar voru á staðnum til að veita ráðgjöf og var fjölda fólks bent á að fara til læknis til frekari skoðunar í kjölfar mælinga,“ segir í tilkynningu frá Hjartaheill og SÍBS.

Metaðsókn var í mælingarnar. Félögin hafa staðið fyrir mælingum af þessu tagi um land allt í á annan áratug, yfirleitt í samvinnu við heilsugæslustöðvar og starfsfólk þeirra. „Farið verður í fleiri slíkar mælingaferðir í vetur,“ segir í tilkynningunni.

Háþrýstingur er yfir 140 í efri mörk eða yfir 90 í neðri mörk. Hættusvæði er yfir 180 í efri mörk eða yfir 110 í neðri mörk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka