Skipverjar sameinast 52 árum síðar

Skipverjar Elliða og Júpíters ásamt Óttari Sveinssyni, höfundi bókarinnar Útkall …
Skipverjar Elliða og Júpíters ásamt Óttari Sveinssyni, höfundi bókarinnar Útkall - Örlagaskotið sem fjallar um björgunina fræknu árið1962. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það er ánægjulegt að hitta alla aftur og sjá að þeir eru lifandi og við góða heilsu,“ segir Birgir Óskarsson, sem var loftskeytamaður á togaranum Elliða sem fórst árið 1962. Áhafnir Elliða og togarans Júpíters sem kom skipverjunum til bjargar hittust í dag í tilefni af útgáfu bókarinnar Útkall - Örlagaskotið, sem fjallar um atvikið. 

Alls var 26 mönnum bjargað þetta kvöld ásamt hundinum Ellý, áður en Elliði sökk 22,5 sjómílur norðvestur af Öndverðarnesi. 

Birgir var sá sem sendi út hjálparbeiðni eftir að skipið fór á hliðina. Togaranum Júpíter barst hjálparbeiðnin og fór skipið á vettvang til þess að bjarga skipverjum. Tveir úr áhöfn Elliða stukku í örvæntingu í gúmmíbát sem slitnaði frá Elliða. Fundust þeir síðar látnir. 

Hjálparbeiðni loftskeytamannsins var spiluð í Ríkisútvarpinu og sat ólétt unnusta Birgis á heimili sínu á Siglufirði og hlustaði á rödd hans á bátabylgjunni. Hún heitti því að ef ekki tækist að bjarga unnusta sínum, skyldi ófætt barn þeirra heita í höfuðið á honum, Birgir eða Birgitta. 

Birgir segist eiga upptöku af neyðarkallinu. Hann hlustar reglulega á hana. „ Ég var svo heppinn að eignast upptökuna af þessu. Þetta var tekið upp af dagblaðinu Tímanum á segulband. Ég á þessa upptöku og er búinn að hlusta á hana margoft og hef gefið hana þeim sem vilja. Í fyrstu skiptin sem ég hlustaði, þá fór hrollur niður bakið á mér, en síðan ekki söguna meir,“ segir Birgir. 

Var bundinn við skorsteinshúsið

Samúel Vilberg Jónsson var skipverji á Júpíter þegar slysið varð. Hann var á þessum tíma aðeins 17 ára gamall. Þegar skipið heyrði neyðarkallið, fóru skipverjar á vettvang og hófu leit að Elliða. Veðrið var afar slæmt og þurfti að binda Samúel og annan skipverja. 

„Ég var bundinn utan á skorsteinshúsið. Við þurftum að binda okkur, annars hefði okkur skolað fyrir borð. Það var þreifandi bylur og öskurok. Það var ekki hundi út sigandi,“ segir Samúel sem man vel eftir nóttinni örlagaríku. 

Áhöfn Júpíters setti það ekki fyrir sig að halda á slysstaðinn þótt veðrið væri slæmt. „Við þurftum að gera þetta bara. Það var allt lagt í sölurnar til að finna Elliða,“ segir Samúel. 

Þegar Júpíter nálgaðist slysstað átti Elliði aðeins eina neyðarrakettu eftir. Þeir þurftu því að nýta það skot vel, því ef áhöfn Júpíters hefði ekki séð birtuna væri öll von úti. 

„Það birti aðeins til veðrið í skamma stund, og við sögðum þeim að skjóta upp rakettunni.“

„Þeir gerðu það og við sáum ljósið. Þá vorum við komnir aðeins framhjá Elliða en við sáum hann á stjórnborða, aðeins fyrir aftan okkur og skipinu var snúið við og kastararnir settir á. Við sáum eiginlega undir kjölinn á skipinu. Skrúan var upp úr og það lá eiginlega á hlið. Mannskapurinn stóð utan á brúnni og biðu eftir að við kæmum,“ segir Samúel. 

Tveir skipverjar á Elliða höfðu horfið út í sortann á fleka, en komust aftur að skipinu eftir að hafa verið taldir af. 

Aðspurður hvernig anrúmsloftið hafi verið eftir björgunina, segir Samúel það hafa verið þrungið. „Það var rosaleg gleði að geta bjargað þeim en þeir voru mjög þrekaðir og óttinn var búinn að vera mikill. Þeir voru búnir að bíða í 4-5 tíma utan á skipinu eftir að við fyndum þá. Þeir voru sjokkeraðir og við þurftum að styðja þá um borð í skipið. En þetta var afar tæpt.“

Júpíter reyndist mörgum vel

Samúel fór nokkrum mánuðum síðar á annan togara í eigu sömu útgerðar, Síríus. Sá togari var gufutogari og þegar skipið var statt út af Snæfellsnesi, á svipuðum slóðum og Elliði fórst, sprakk ketill og skipið rak um í tvo daga þar til togarinn Júpíter kom og sótti skipið. „Júpíter reyndist því mörgum vel,“ segir Samúel að lokum.  

Birgir Óskarsson var loftskeytamaður á togaranum Elliða, sem fórst árið …
Birgir Óskarsson var loftskeytamaður á togaranum Elliða, sem fórst árið 1962. mbl.is/Ómar Óskarsson
Samúel Vilberg Jónsson var skipverji á Júpíter, skipinu sem kom …
Samúel Vilberg Jónsson var skipverji á Júpíter, skipinu sem kom skipverjum á Elliða til bjargar, kvöldið örlagaríka. mbl.is/Ómar Óskarsson
Óttar Sveinsson er höfundur bókarinnar.
Óttar Sveinsson er höfundur bókarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson
Útkall - Örlagaskotið eftir Óttar Sveinsson.
Útkall - Örlagaskotið eftir Óttar Sveinsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert