Stöðugt eldri, sífellt veikari

Eldri borgarar á ferð í Hafnarfirði.
Eldri borgarar á ferð í Hafnarfirði. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hér á Íslandi eru lífsgæði mikil og meðalævilíkur með því mesta sem gerist í Vestur-Evrópu (82,4 ár). Þá erum við í 5. sæti meðal ríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).

Það er ágætt að hugsa til þess að við tórum ágætlega hér í norðrinu og getum gert okkur vonir um að fá að tilheyra þessu tilverusviði lengur en margir aðrir íbúar heims. En þýðir það að við séum heilbrigð þjóð? Getur verið að á sama tíma og við lifum stöðugt lengur, verðum við jafnframt veikari og veikari?

Guðmundur Löve, framkvæmdastjóri SÍBS, skrifar í nýjasta tölublaði SÍBS-blaðsins að „ævilíkur Íslendinga sem orðnir eru 65 ára séu bara rétt liðlega í meðallagi OECD, sem ásamt vísbendingum um aukna tíðni lífsstílssjúkdóma hér landi, kunni að vera fyrirboði þess að í fyrsta sinn á umliðnum öldum muni ævilíkur barnanna okkar verða lægri en kynslóðanna á undan.“ Ástæða þessa er því einföld: lífsstílssjúkdómar.

Aðrir mælikvarðar en meðalævilíkur eru notaðir til þess að greina heilbrigði þjóða, t.d. mælikvarðar yfir „glötuð góð æviár“ vegna ótímabærs dauða eða örorku. Árið 2010 glötuðust til dæmis 68 þúsund góð æviár Íslendinga samkvæmt þessum mælikvarða og um helming þessa skaða má rekja til lífsstílssjúkdóma.

Íslendingar eru í dag feitasta þjóð Evrópu og það boðar ekki á gott hvað tíðni sykursýki í framtíðinni varðar. Í grein Guðmundar kemur jafnframt fram að mesti heilsufarsskaði meðal Íslendinga sé ekki krabbamein og hjarta- og æðasjúkdómar heldur stoðkerfisraskanir og geðsjúkdómar.

Ljóst er að skipulag og uppbygging samfélaga hefur umtalsverð áhrif á lífsstíl íbúa þeirra. En hvað þarf að gera til þess að draga úr tíðni lífsstílssjúkdóma meðal Íslendinga? Guðmundur segir í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins að mikilvægt sé að gera breytingar á innviðum samfélagsins til þess að gefa fólki kost á að stunda heilbrigt líferni í daglegu amstri. „Það er fjöldamargt sem hægt er að gera. Þetta er ekki spurning um hvort kemur á undan, eggið eða hænan. Fyrst og fremst þarf rétta innviði til þess að fólk geti lifað heilbrigðu lífi. Þjóðverjar fóru ekki að framleiða sportbíla fyrr en þeir voru búnir að leggja hraðbrautir.“

Hann bætir við að það sé ekki einungis á ábyrgð borgaryfirvalda að gera breytingar heldur skipti einnig miklu máli hvernig einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki hegða sér og bregðast við.

„Í fyrsta lagi veldur heilbrigðisvandi miklum kostnaði. Fjárfesting í hverjum kílómetra af hjólreiðastíg léttir fjárfestingarþörf til hvers kílómetra af gatnakerfi, sem er til að mynda miklu dýrara. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir okkur að mataræði sé stærsti áhættuþátturinn okkar og fast á hæla þess kemur hreyfingarleysi. Það eitt og sér er orðinn gríðarlega stór þáttur í mörgum lífsstílstengdum sjúkdómum og veldur, burtséð frá heilbrigði, miklum kostnaði fyrir samfélagið. Þá þurfa fyrirtæki að gera starfsmönnum sínum mögulegt að komast til og frá vinnu án þess að nota einkabíl, t.d. með því að hafa aðstöðu til fataskipta, sturtuaðstöðu og læsta hjólageymslu. Einnig þekkist víða að styðjast við umbunarkerfi fyrir þá sem bæta heilsuna og koma gangandi eða hjólandi til vinnu. Erlendis eru fyrirtæki oft með skattaafsláttarkerfi þar sem starfsmenn geta keypt hjól skattfrjálst í gegnum vinnuveitanda.“

Viðeigandi styrktaraðila, takk

Guðmundur segir jafnframt að félagasamtök, og þá sérstaklega íþróttafélög, þurfi einnig að leggja sitt af mörkum.

„Það er furðulega algengt að gert sé ráð fyrir að mætt sé á bíl á æfingu. Þá þurfa íþróttafélög einnig að huga að hjólageymslum. Hér í Reykjavík er mjög algengt að góðum reiðhjólum sé stolið. Íþróttafélög mættu líka taka til endurskoðunar að vera með sjálfsala sem selja sykrað gos og sælgæti, selja frekar eitthvað sem stendur þeim nær. Sama gildir um styrktaraðila sem þau velja sér. Pepsi-deildin er ágætis dæmi. Mér finnst það ekki samræmast ímynd og hlutverki íþróttafélaga að velja sér styrktaraðila sem samræmast ekki betur lýðheilsuhlutverki þeirra.“

Fréttina má lesa í heild sinni í Sunnudagsmogganum. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert