Sumarauki sem stendur áfram

Golfað í nóvember á Nesinu. Kylfingar nýttu sér óvenulegt nóvemberveður …
Golfað í nóvember á Nesinu. Kylfingar nýttu sér óvenulegt nóvemberveður til golfiðkunar á Seltjarnarnesi í vikunni Ómar Óskarsson

Óvenjuleg hlýindi miðað við árstíma hafa verið á landinu undanfarna viku og engu hefur verið líkara en að vor sé í lofti. Að sögn veðurfræðings er ekki útlit fyrir að breyting verði á í bili og því geti landsmenn notið þessa sumarauka eitthvað áfram.

„Þetta er búið að vera ansi gott veður í viku eða meira. Þetta er óvanalegt finnst manni. Það koma svona sveiflur í veðrakerfin. Við höfum bara verið heppin allt þetta haust finnst mér. Það er ekki að sjá miklar breytingar í vikunni nema aðeins suðlægari vind. Það verður áfram hlýtt en dálítil væta sunnan- og austanlands. Maður verður bara að njóta þess á meðan er,“ segir Þorsteinn Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Spurður hvort einhver sérstök ástæða eða aðstæður séu fyrir hendi sem valdi hlýindunum segir Þorsteinn að austlægar áttir beri hlýtt loft hingað frá Evrópu. Engar norðanáttir hafi látið á sér kræla og kalda loftið sé víðsfjarri norður í hafi.

„Lægðirnar hafa haldið sig fjarri einhvern veginn. Það hefur bara ekki náð til okkar þetta kalda loft enn en það kemur náttúrlega að því,“ segir Þorsteinn.

Ekki sé hægt að tengja svona tilfallandi veður við stærri atburði eins og hnattræna hlýnun. Þótt eitt haust sé hlýtt geti næstu tíu verið kaldari.

„Þetta er allt spurning um meðaltöl þessir loftslagsútreikningar. Loftslagið er meðaltal yfir langan tíma en veður er það sem gerist á stuttum tíma. Þetta er bara sumarauki hálfgerður sem virðist ætla að vera áfram út vikuna,“ segir Þorsteinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert