Eldvarnir leigjenda áberandi verri

Slökkvitæki voru til á heimilum 58% fólks á aldrinum 18-24 …
Slökkvitæki voru til á heimilum 58% fólks á aldrinum 18-24 ára borið saman við 71-77% á aldursbilunum 35-65 ára og eldri. mbl.is/Þorkell

Um 63% þeirra sem búa í leiguhúsnæði eru með engan eða aðeins einn reykskynjara en hlutfallið er 26% hjá þeim sem búa í eigin húsnæði samkvæmt könnun Capacent Gallup. Eldvarnir hjá leigjendum er áberandi verri hvort sem litið er til reykskynjara, eldvarnarteppa eða slökkvitækja. Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar, segir ástandið verst hjá yngri leigjendum.

Í könnuninni sem gerð var fyrir Eldvarnabandalagið og Landsamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna í haust kemur fram að þrír af hverjum fjórum sem búa í eigin húsnæði séu með slökkvitæki heima hjá sér. Aðeins rétt rúmur þeirra sem búa í leiguhúsnæði eru með það öryggistæki. Eldvarnarteppi er til á heimilum 63% þeirra sem eiga húsnæði en 44% þeirra sem leigja.

Einnig var spurt hversu margir reykskynjarar væru settir upp á heimilum fólks. Algengast var að aðeins einn reykskynjari væri til staðar í leiguhúsnæði, 54%. Alls voru 63% þeirra sem búa í leiguhúsnæði með engan eða aðeins einn reykskynjara. Til samanburðar voru 75% þeirra sem búa í eigin húsnæði með tvo eða fleiri reykskynjara eins og slökkviliðsmenn mæla með.

„Mér líst ekki vel á þessar niðurstöður. Við höfum látið gera svona könnun annað hvert ár og það er þetta sem stingur alltaf svolítið í augun. Eldvarnir í öðru íbúðahúsnæði hafa batnað á milli ára, reykskynjarar, slökkvitæki og slíkt en í leiguhúsnæði, sérstaklega hjá fólki í yngri kantinum, eru eldvarnir almennt ekki góðar og þó nokkuð mikið verri en í öðru leiguhúsnæði,“ segir Björn.

Eldvarnir í leiguhúsnæði eru á ábyrgð bæði leigusala og leigjenda að sögn Björns. Samkvæmt byggingarreglugerð hafa kröfur um  reykskynjara og slökkvitæki í íbúðarhúsnæði verið í gildi undanfarna áratugi og því ber eigandi húsnæðis ábyrgð á eldvörnum í nýbyggðu húsnæði. Leigjendur beri hins vegar ábyrgð á viðhaldinu.

„Hvað varðar eldra húsnæði þá voru ekki ákvæði í lögum um reykskynjara og slökkvitæki. Þá verðum við að segja að það sé á ábyrgð bæði eigenda og leigutaka að hafa þessi mál í lagi,“ segir Björn. 

Mannvirkjastofnun og Eldvarnabandalagið ætla að bregðast við með aukinni fræðslu. Til að mynda munu slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn dreifa bæklingi um eldvarnir heimilisins til allra níu ára barna á landinu í sérstöku eldvarnaátaki landssambands þeirra í næstu viku. Þá hefur Eldvarnarbandalagið sent velferðarráðuneytinu erindi um nauðsyn þess að endurskoða húsaleigulög og setja inn ákvæði um skyldur leigusala til að tryggja lágmarkseldvarnir þegar húsnæði er leigt út. Björn telur þó að breytingar á lögum séu þyngri róður.

„Við teljum að það sé mikilvægt að fara fræðsluleiðina á meðan skoðað er hvort að það séu einhverjar lagalegar leiðir sem hægt er að fara,“ segir Björn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert