Hyggst efla lögreglustjóraembættið

Páley Borgþórsdóttir
Páley Borgþórsdóttir

„Mér líst mjög vel á þetta og ég er mjög ánægð með það að hafa orðið fyrir valinu. Ég hlakka mikið til að takast á við þetta verkefni,“ segir Páley Borgþórsdóttir, nýskipaður lögreglustjóri í Vestmannaeyjum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson dómsmálaráðherra skipaði Páleyju í embættið í gær, en hún hefur starfað sem héraðsdómslögmaður frá árinu 2007. Páley útskrifaðist með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2002. Hún öðlaðist málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi árið 2004. Þá hefur hún starfað sem löglærður fulltrúi hjá sýslumanninum í Vestmannaeyjum og stað­gengill sýslumanns.

Páley er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum, en flutti þaðan á meðan hún stundaði nám. Hún hefur nú búið í Eyjum síðan árið 2002, og þekkir samfélagið því mjög vel. „Ég þekki vel til samfélagsins og embættisins hér í Vestmannaeyjum og það er frábært starfsfólk sem vinnur þar með mikla þekkingu og reynslumikið lögreglulið. Ég hlakka mikið til að vinna með þessu fólki.“

Áhersla á heimilisofbeldis- og fíkniefnamál

Páley seg­ir ekki tíma­bært að fjalla ít­ar­lega um kom­andi áherslu­breyt­ing­ar, enda sé hún ekki búin að taka við starfinu formlega og því ekki búin að ræða við komandi samstarfsfólk sitt. „En nýjum mönnum fylgja alltaf breytingar, ég held það sé óhjákvæmilegt. Framtíðarsýnin er að efla embættið og styrkja það; halda uppi öflugri og góðri löggæslu og tryggja öryggi borgaranna.“

Hún segir þó að allt megi bæta og hjá embættinu séu vissir málaflokkar sem þurfi meiri athygli en þeir hafa fengið. „Það eru til dæmis heimilisofbeldismál, fíkniefnamál og almannavarnir svo eitthvað sé nefnt. Ég tel að það þurfi að sinna forvörnum meira, skipuleggja rannsóknir á fíkniefnalagabrotum og skipulagðri glæpastarfsemi. Það er eitthvað sem er óhjákvæmilegt að leggja vinnu í.“

Einnig segir hún mikilvægt að gætt sé að hlutverki lögreglu í barnaverndarmálum. „Í litlu samfélagi sjáum við oft veikleika mjög snemma hjá ungum afbrotamönnum og gætum gripið þar fyrr inn í.“

„Sinna sem flestu heima í héraði“

Páley segist styðja þá breytingu sem lögð er til í frumvarpi sem nú er til umsagnar um framtíðarskipun ákæruvalds og varðar lögreglustjóra. Með því stendur til að lögreglustjórar fari með ákæruvald vegna fleiri brota en nú er. „Þetta er mjög ánægjulegt og jákvætt enda á að sinna sem flestu heima í héraði. Mér finnst þetta eðlilegt og jafnframt jákvæð og góð breyting.“

Loks segist Páley hafa fengið góð viðbrögð frá fólki í samfélaginu. „Þetta er mjög ánægjulegt og það eru spennandi tímar framundan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka