Börn fögnuðu með réttindagöngu

Frístundaheimilin í Grafarvogi fögnuðu í dag 25 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með réttindagöngu þar sem gengið var frá Rimaskóla að Hlöðunni í Gufunesbæ.

Börnin hafa í vikunni verið að kynnast Barnasáttmálanum og voru mörg þeirra búin að föndra falleg spjöld með sínum áherslum, að því er fram kemur á fréttavefnum Gullinbrú.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, mætti í gönguna. Þar lýsti hann yfir ánægju með þetta framtak og bað börnin að klappa fyrir sér og öllum öðrum börnum í heiminum.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var lögfestur hér á landi 2. febrúar 2013 og er nú hluti af íslenskri löggjöf.

Þetta er í fyrsta skipti sem frístundaheimilin í Grafarvogi fara í slíka göngu, en stefnan er að gera þetta að árlegum viðburði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert