Leitin að gulli krefst heppni

Gullleit hefur meðal annars farið fram í Þormóðsdal.
Gullleit hefur meðal annars farið fram í Þormóðsdal. Sigurður Bogi Sævarsson

Allir hafa áhuga á gulli en leitin að því krefst þolinmæði og heppni. Þetta segir Hjalti Franzson, jarðfræðingur hjá Íslenskum orkurannsóknum, en hann mun fjalla um gullleit á Íslandi í fyrirlestri í Hönnunarsafni Íslands kl. 20 í kvöld.

Tilefni fyrirlestrarins er níutíu ára afmæli Félags íslenskra gullsmiða. Þar verður meðal annars spurt hvort að von sé til þess að íslenskir gullsmiðir geti notað íslenskt gull í framtíðinni.

„Við höfum fundið nægilega mikið til að við höldum áfram að leita. Við Þormóðsdal fyrir ofan Hafravatn og svo eru fleiri svæði sem við höfum fundið töluvert magn af gulli. Það er ennþá verið að leita en við erum það bjartsýnir að við teljum að það geti alveg verið veruleiki í framtíðinni,“ segir Hjalti.

Ekki er hins vegar nóg að finna lítið magn með miklu gulli í heldur verður að finna töluvert rúmmál af bergi sem magn af gulli er að finna í til að hagkvæmt sé að hefja vinnslu á því. Hjalti segir að ekki sé verið að leita að gulli með virkum hætti hér á landi nú um stundir.

Gullleit er þolinmæðisvinna og þurfa menn að hafa heppnina með sér til að finna nokkuð.

„Þú ferð út í mörkina og týnir upp grjót á þeim stöðum sem þú telur líklega. Þú verður náttúrulega að þekkja hvaða grjót lítur best út. Sýnin eru svo send til efnagreiningar,“ segir Hjalti.

Fyrirlesturinn hefst kl. 20 í Hönnunarsafninu í Garðabæ og þar mun Hjalti fjalla frekar um sögu gullleitar á Íslandi, hvernig það myndast í náttúrunni og hvaða aðferðum gullleitarmenn beita til að ná sem bestum árangri.

„Það hafa allir áhuga á gulli,“ segir Hjalti spurður um hvers vegna umræður um gullleit á Íslandi skjóti upp kollinum með reglulegu millibili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert