Ríkisstjórnin ekki lokað augunum

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Það er auðvelt að gera sig breiðan vegna ástandsins í heilbrigðismálum og vísa allri ábyrgð á þann sem hér stendur eða aðra ráðherra í ríkisstjórninni. Málið er ekki alveg svona einfalt. Á síðasta kjörtímabili var skorið niður um tæpa 30 milljarða í heilbrigðisþjónustunni og sérstaklega á Landspítalanum. Það var skorið niður af síðustu ríkisstjórn í heilbrigðismálum um um það bil 30 milljarða. Það hefur afleiðingar og þær eru enn að birtast okkur.“

Þetta sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi í dag í umræðum um stöðuna í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Núverandi ríkisstjórn hefði hins vegar aukið framlög til málaflokksins. Beindi hann orðum sínum til Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, sem sakaði ráðherrann um að klúðra fjárlagagerð annað árið í röð. „Í fyrra ollu fjárlagatillögur hans því að það varð líka upplausnarástand á Landspítalanum og þáverandi forstjóri spítalans hraktist úr starfi. Það sem gerðist síðan var að Alþingi tók fram fyrir hendur hæstvirts fjármálaráðherra og í meðförum þingsins var fjárlagafrumvarpinu breytt.“

Bjarni sagði ríkisstjórnina gjarnan vilja gera meira og betur en hins vegar hafi aldrei meiri fjármunir verið settir í rekstur Landspítalans en á þessu ári. Það kemur síðan í ljós þegar líður undir lok þessa árs að Landspítalinn er nokkuð langt frá því að halda sig innan fjárheimilda sem er alvarlegt mál vegna þess að hér er fjárveitingavaldið og því miður virðist Landspítalinn ekki standast áætlanir á grundvelli þeirra fjárheimilda sem hann hefur á þessu ári.“

Fyrir vikið væri verið að fara yfir það samhliða vinnu við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar hver raunveruleg þörf væri og hvað meira væri hægt að gera til þess að koma til móts við þann vanda. „En að halda því að þessari ríkisstjórn að hún loki augunum fyrir vandanum eru hrein öfugmæli vegna þess að við höfum tekið á honum alveg sérstaklega. Það gerðum við fyrir ári með því að bæta við 4 milljörðum í heilbrigðiskerfið, setjast af stað tækjakaupaáætlun og styrkja rekstrargrundvöll Landspítalans mjög verulega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert