Upplýsingaflæðið ekki endilega minna

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Vissulega á að taka allar ábendingar alvarlega um stöðu fjölmiðla hér, hvaðan svo sem þær berast. Það er sjálfsagt fyrir okkur að hugleiða hvort það sé í raun og veru svo að upplýsingaflæði sé minna núna en var fyrir til dæmis tveimur árum eða að möguleikar fréttamanna til að sinna störfum sínum séu minni en áður.“

Þetta sagði Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra á Alþingi í dag í svari við fyrispurn frá Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, en hún vakti máls á úttekt samtakanna Fréttamenn án landamæra sem birtist á vefsíðu þeirra í gær þar sem lýst er áhyggjum af stöðu upplýsingafrelsis á Íslandi. Spurði Katrín um viðbrögð ráðherrans og hvort til stæði að styrkja stöðu Ríkisútvarpsins með annars með því að tryggja að útvarpsgjaldið rynni óskipt til félagsins.

„Ég verð þó að segja eins og er að ég hef ekki heyrt neinn sérstakan rökstuðning fyrir því annan en þann sem við þekkjum, að fjölmiðlar á Íslandi, bæði sá sem er rekinn af ríkinu og einkareknir fjölmiðlar, hafa auðvitað fengist við erfiða rekstrarstöðu undanfarin ár. Á einkareknu fjölmiðlunum hefur þurft að grípa til uppsagna á undanförnum árum og hagræða mjög þar í rekstri. Við vonum öll að þeir fjölmiðlar séu komnir fyrir vind og geti sinnt hlutverki sínu og í ljósi aukins efnahagsbata muni staða þeirra styrkjast,“ sagði Illugi.

Hvað Ríkisútvarpið varðaði minnti ráðherrann á að tekið væri fram í fjárlagafrumvarpinu að verið væri að skoða fjármál þess.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert