Eldri skákmenn leika sér

Bragi Halldórsson skákmaður tekur þátt í fyrsta Íslandsmótinu í skák …
Bragi Halldórsson skákmaður tekur þátt í fyrsta Íslandsmótinu í skák fyrir 65 ára og eldri. mbl.is/Kristinn

Fyrstu Íslandsmót eldri skákmanna í atskák fara fram í safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju á morgun. Keppt verður í tveimur flokkum, 50 ára+ og 65 ára+, og er stefnt að því að þessi aldursflokkamót verði hluti af Skákþingi Íslands.

Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands, segir að áhugi á keppni eldri skákmanna hafi aukist víða erlendis undanfarin ár, margir íslenskir, eldri skákmenn séu iðnir við kolann og því hafi verið ákveðið að bjóða upp á Íslandsmót fyrir þá.

Eldri borgarar tefla í tveimur skákklúbbum á höfuðborgarsvæðinu. Annarsvegar í Riddaranum í Hafnarfirði, sem heldur Íslandsmótin á morgun í samstarfi við Skáksambandið, og hinsvegar í skákfélaginu Ásum í Stangarhyl í Reykjavík. Félagar koma saman vikulega og hafa margir þeirra þegar skráð sig í keppnina á morgun.

Eykur áhugann

Bragi Halldórsson, fyrrverandi landsliðsmaður í skák og Norðurlandameistari í hraðskák 1971, er félagi í lokuðum klúbbi eldri skákmanna. „Við hittumst til þess að leika okkur og spjalla,“ segir Bragi, sem tefldi fyrir skömmu á árlega skákmótinu Æskunni og ellinni, þar sem mætast skákmenn yngri en fimmtán ára og skákmenn eldri en sextíu ára, og sigraði rétt eins og í fyrra, en næst hjá honum er Íslandsmót eldri skákmanna. Hann þykir sigurstranglegur í eldri flokknum enda sterkasti skráði skákmaðurinn, enn sem komið er. „Mér líst ágætlega á þetta og ég reyni að gera mitt besta, en árangurinn skiptir minna máli en áður,“ segir hann um nýja mótið. Bætir við að snerpan sé ekki sú sama og fyrr og því sé eðlilegra að tefla við menn á svipuðu róli. Minnir samt á að skákin taki lítið tillit til aldurs manna og þessir eldri og reyndari geti att kappi við þá ungu og efnilegu, eins og mótið Ellin og æskan beri vitni um.

Bragi segir að Íslandsmót eldri skákmanna ýti örugglega undir skákáhuga viðkomandi. Undanfarin ár hafi í auknum mæli verið unnið að því að draga þessa eldri aftur að skákborðinu víða um heim og Alþjóðaskáksambandið haldi meðal annars heimsmeistaramót fyrir eldri skákmenn. Ingvar Ásmundsson heitinn hafi til dæmis snúið sér í auknum mæli að skákinni eftir að hann hætti að vinna sem skólastjórnandi og kennari og náð mjög góðum árangri, verið nálægt því að verða heimsmeistari öldunga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert