Greiði 9 milljónir í miskabætur

Hæstiréttur Íslands
Hæstiréttur Íslands mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur hefur snúið við dómi héraðsdóms Reykjavíkur í skaðamótamáli sem starfsmaður höfðaði á hendur vinnuveitanda sínum og gert hinum síðarnefnda að greiða manninum tæpar 9 milljónir í miskabætur, ásamt vöxtum.

Maðurinn höfðaði mál gegn vinnuveitandanaum, Jarðborunum hf., eftir að hann slasaðist við að koma fyrir göngupalli meðfram glussastöð jarðbors. Verkið fólst í því að losa um einingar sem voru áfastar við hlið glussastöðvarinnar og leggja þær niður þannig að þær mynduðu göngupall meðfram honum.

Slysið bar að með þeim hætti að maðurinn var að búa sig undir að fara upp á einingu eins göngupallsins, sem búið var að fella niður, og greip með hægri hönd í þá einingu sem fella átti næst, með þeim afleiðingum að einingin féll niður og vinstri hönd mannsins varð á milli hennar og þeirrar einingar sem búið var að fella niður.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að einingin sem féll á hönd mannsins hefði losnað við það að pinni sem hélt henni uppi hrökk skyndilega úr stæði sínu, en það hefði ekki getað gerst nema vegna þess að hann hefði ekki verið festur á tryggilegan hátt. Orsakir slyssins yrðu því raktar til saknæmrar vanrækslu starfsmanns eða starfsmanna Jarðboranna.

Héraðsdómur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu, að eins og gögnum málsins og framburði fyrir dómi hefði verið háttað, yrði ekki talið að fyrir lægi af hvaða orsökum palleiningin féll niður. Þá er vísað til skýrslu Vinnueftirlitsins, þar sem fram kemur að ætla megi að helsta orsök slyssins hafi verið sú að þegar pallurinn féll niður var hönd hins slasaða staðsett á sjálfu „klemmusvæði“ göngupallsins.

Héraðsdómur féllst ekki heldur á bótaskyldu á þeim grunni að framkvæmd umræddrar vinnu hefði verið óforsvaranleg, verkstjórn ófullnægjandi eða skortur verið á viðunandi leiðbeiningum.

Samkvæmt matsgerð sérfræðings í bæklunar- og skurðlækningum var maðurinn veikur í 217 daga vegna slyssins, án þess að vera rúmfastur. Þá var varanleg örorka hans metin 15%.

Auk þess að dæma Jarðboranir til að greiða starfsmanninum miskabætur, var það niðurstaða hæstaréttar að fyrirtækið skyldi greiða manninum málskostnað á báðum dómstigum, en þar sem maðurinn fékk gjafsókn rennur hann í ríkissjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert