Píratar vakna síður endurnærðir

Gott er að borða grænmeti oft á dag.
Gott er að borða grænmeti oft á dag. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Niðurstöður könnunar MMR á heilsuvenjum Íslendinga benda til þess að Íslendingum sem vakna endurnærðir og fái sér hollan morgunmat fjölgi frá því fyrir ári. Af þeim sem tóku afstöðu nú sögðust 79,2% borða hollan morgunverð nokkrum sinnum í viku eða oftar, borið saman 75,9% í fyrra og 66,1% sögðust vakna endurnærðir vikulega eða oftar, borið saman við 62,3% í fyrra.

Fleiri sögðust borða ávexti og/eða grænmeti nokkrum sinnum í viku eða oftar en í fyrra. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 84,8% borða ávexti og/eða grænmeti nokkrum sinnum í viku eða oftar nú, borið saman við 81,8% í fyrra.

Þá fjölgar þeim sem sögðust taka þátt í uppbyggjandi samveru með öðru fólki svo til daglega. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 35,2% taka þátt í uppbyggjandi samveru með öðru fólki svo til daglega, borið saman við 31,5% í fyrra.

Líkt og í fyrra sagðist tæpur fjórðungur taka þátt í líkamlegum íþróttum nokkrum sinnum á ári eða sjaldnar.

Spurt var: „Hversu oft gerir þú eftirfarandi?“
1. „Vakna endurnærð(ur)“
2. „Borða hollan morgunverð“
3. „Borða ávexti og/eða grænmeti“
4. „Tek þátt í líkamlegum íþróttum (t.d að fara í ræktina, út að hlaupa eða í göngutúra)“
5. „Tek þátt í uppbyggjandi samveru með öðru fólki“

Svarmöguleikar voru: Svo til daglega, Nokkrum sinnum í viku, Nokkrum sinnum í mánuði, Nokkrum sinnum á ári eða sjaldnar, Aldrei, Veit ekki/vil ekki svara.

Alls tóku 97,2% til 99,5% afstöðu til spurninganna. 

Munur eftir stuðningi við stjórnmálaflokka

Konur voru líklegri en karlar til að stunda fjórar af fimm mældum heilsuvenjum nokkrum sinnum í viku eða oftar. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 91,9% kvenna borða ávexti og/eða grænmeti nokkrum sinnum í viku eða oftar, borið saman við 78,4% karla. 83,9% kvenna sögðust borða hollan morgunverð nokkrum sinnum í viku eða oftar, borið saman við 74,8% karla. 66,5% kvenna sögðust taka þátt í uppbyggjandi samveru með öðru fólki nokkrum sinnum í viku eða oftar, borið saman við 58,8% karla og 55,0% kvenna sögðust taka þátt í líkamlegum íþróttum nokkrum sinnum í viku eða oftar, borið saman við 50,0% karla.

Hlutfall þeirra sem sögðust vakna endurnærð nokkrum sinnum í viku eða oftar var hærra meðal eldri en yngri þátttakenda. Af þeim sem tóku afstöðu og tilheyrðu yngsta aldurshópnum (18-29 ára) sögðust 59,3% vakna endurnærð nokkrum sinnum í viku eða oftar, 61,2% á aldrinum 30-49 ára, 73,3% á aldrinum 50-67 ára og 84,3% þeirra sem tilheyrðu elsta aldurshópnum (68 ára og eldri) sögðust vakna endurnærð nokkrum sinnum í viku eða oftar.

Píratar sögðust síður vakna endurnærðir og að þeir borðuðu hollan morgunverð en stuðningsfólk annarra flokka. Þannig sögðust 55,0% Pírata borða hollan morgunmat nokkrum sinnum í viku eða oftar, borið saman við 89,2% þeirra sem styðja Framsóknarflokkinn og 54,9% Pírata sögðust vakna endurnærðir nokkrum sinnum í viku eða oftar, borið saman við 74,8% þeirra sem styðja Vinstri-græna.

Þeir sem studdu Framsóknarflokkinn voru síður líklegir til að taka þátt í uppbyggilegri samveru með öðru fólki en stuðningsfólk annarra flokka. Þannig sögðust 52,3% Framsóknarfólks taka þátt í uppbyggilegri samveru með öðru fólki nokkrum sinnum í viku eða oftar, borið saman við 74,0% þeirra sem styðja Vinstri-græna.

Þeir sem studdu Framsóknarflokkinn og Píratar voru ólíklegri en stuðningsfólk annarra flokka til að taka þátt í líkamlegum íþróttum. Þannig sögðust 43,9% Framsóknarfólks og 45,8% Pírata taka nokkrum sinnum í viku eða oftar þátt í líkamlegum íþróttum, borið saman við 60,7% stuðningsfólks Vinstri-grænna og 60,1% stuðningsfólks Bjartrar framtíðar.

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 975 einstaklingar, 18 ára og eldri
Dagsetning framkvæmdar: 29. október til 4. nóvember 2014

Eldri kannanir sama efnis:
2013 nóvember: MMR könnun: heilsuvenjur Íslendinga

Hreyfing er góð fyrir líkamann og heilsuna.
Hreyfing er góð fyrir líkamann og heilsuna. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert