Svæfingalæknar í verkfall eftir helgi

Læknar við störf. Engar valaðgerðir munu fara fram á spítalanum …
Læknar við störf. Engar valaðgerðir munu fara fram á spítalanum á mánudag og þriðjudag, en þá eru m.a. svæfingalæknar í verkfalli. mbl.is/Ásdís

„Það var fundað í klukkutíma í dag og í raun og veru gerðist ekki neitt. Staðan er nú óbreytt frá síðasta fundi,“ segir Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, í samtali við mbl.is.

Boðað hefur verið til næsta fundar á þriðjudaginn.

Það er því ljóst að verkfallsaðgerðir lækna munu hefjast að nýju á mánudaginn, þá hjá aðgerðar- og flæðisviði og stendur það yfir í tvo daga.

Bráðamót­taka, end­ur­hæf­ing­ar­deild­ir, öldrun­ar­deild­ir og fleira heyr­ir und­ir flæðisvið spít­al­ans en á aðgerðasviði er gjör­gæsl­an, skurðstof­ur, spegl­an­ir, svæf­ing, blóðbanki og fleira.

Það þýðir m.a. að svæfingalæknar fari í verkfall. „Svæfingalæknar falla undir aðgerðarsvið; þá falla því niður aðgerðir sem þurfa svæfingar og deyfingar, nema auðvitað bráðaaðgerðir sem geta ekki beðið,“ segir Þorbjörn. 

Samninganefnd Skurðlæknafélags Íslands fundaði einnig hjá ríkissáttasemjara í dag. Að sögn Helga Kjartans Sigurðssonar, formanns félagsins, bar fundurinn engan árangur. Ekki hefur verið boðað til næsta fundar í deilunni.

Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands.
Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert