Kvenfélög skora á stjórnvöld

Landspítalinn við Hringbraut.
Landspítalinn við Hringbraut. mbl.is/Ómar

Formannaráðsfundur Kvenfélagasambands Íslands var haldinn í dag í Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum. Skorar fundurinn á ríkisstjórn Íslands og Alþingi að taka hið allra fyrsta ákvörðun um fullnaðarhönnun og framkvæmdir við byggingu Landspítalans. 

Telur fundurinn að með því sé óvissunni, sem skapast hefur í heilbrigðismálum landsins, eytt. 

Í yfirlýsingu fundarins segir að Kvenfélagasambandið sé stolt af því að hafa verið fyrstu félagasamtökin í landinu til þess að ganga til liðs við samtökin Spítalann okkar. Þá segir einnig að konur hafi frá upphafi lagt drjúgan skerf til bygginga á Landspítalalóðinni, síðast þegar Barnaspítalinn var byggður. 

„Sjúkrahúsin í Reykjavík voru sameinuð árið 2000 með því fyrirheiti að byggt yrði yfir sameinaða starfsemi þeirra og hafin bygging á nútímalegu háskólasjúkrahúsi. Undirbúningur þessa hefur því staðið yfir í nær 15 ár. Hönnun spítalans við Hringbraut var langt komin fyrir tveimur árum en þó liggur ennþá ekki fyrir ákvörðun um hvort ljúka skuli fullnaðarhönnun og hefja framkvæmdir.  Ljóst er að þörf fyrir nýbyggingar Landspítala er orðin mjög brýn og því er mikilvægt að hraða þessum úrbótum,“ segir í greinargerð með yfirlýsingunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert