Velji aðferðir sem skerði samkeppni minnst

Vínbúð.
Vínbúð.

Samkeppniseftirlitið er fylgjandi því að núgildandi fyrirkomulag við sölu áfengis verði endurskoðað. Eftirlitinu er ljóst mikilvægi þess að vernda samfélagið frá þeirri vá sem neysla áfengis getur haft í för með sér en til þess eigi að velja aðferðir sem skerða frjálsa samkeppni sem minnst. Þetta kemur fram í umsögn Samkeppniseftirlitsins um frumvarp Vilhjálms Árnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, um frjálsa sölu á áfengi.

Í umsögninni kemur einnig fram að Samkeppniseftirlitinu hafi borist allnokkrar ábendingar og kvartanir á síðustu árum um háttsemi Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins á áfengismarkaði. „Núgildandi lög fela hins vegar í sér verulega takmörkun á heimildum Samkeppniseftirlitsins til þess að bregðast við slíkum kvörtun, t.d. á grundvelli b-liðar 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga, sem heimilar aðgerðir gegn athöfnum opinberra aðila. Lög og reglugerður sem nú gilda á áfengismarkaði, t.a.m. áfengislög nr. 75/1998 og lög um verslun með áfengi og tóbak nr. 86/2011, eru þannig sérlög, sem geta gengið framar almennum ákvæðum samkeppnislaga.“

Kvartanir til Samkeppniseftirlitsins sem snúa að ÁTVR hafa einkum varðað vöruvalsreglur fyrirtækisins, synjun ÁTVR um að taka vörur í reynslusölu, stærðartakmarkanir á sölueiningum áfengra drykkja, framsetningu í verslunum ÁTVR og meintar ávirðingar þess efnis að ráðgjafar á vegum ÁTVR hygli ákveðnum tegundum umfram aðrar.

Þá hafi verið bent á að kerfi ÁTVR vegna reynslusölu sé gallað. Stórir birgjar geti misnotað kerfið með því að koma vöru í reynslusölu og kaupa svo sjálfir mikið af henni til þess að skapa eftirspurn. „Þarna væru stórir aðilar á markaði í mun sterkari stöðu en litlir aðilar, aðgangshindranir miklar, og því um að ræða opinberar samkeppnishömlur á áfengismarkaði.“

Samkeppniseftirlitið segir einnig að það muni ráðast af framvindu mála og framkvæmd samkeppnislaga hvort frjáls smásala áfengis muni leiða til þess að minni keppinautar í hópi birgja muni eiga auðveldara með að komast að á markaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert