Deiluaðilar þurfa að leggja sig fram

Læknar að störfum.
Læknar að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Deiluaðilar þurfa að fara að leggja sig meira fram og leggja meira af mörkum í þessari deilu,“ segir Magnús Pétursson, ríkissáttasemjari, um kjaradeilu lækna. 

Verk­fall lækna hef­ur staðið í tæp­ar fjórar vik­ur og á þeim tíma hafa yfir tuttugu sáttafundir verið haldnir hjá ríkissáttasemjara. „Það er orðið mjög brýnt að veita þessari deilu meiri athygli,“ segir Magnús og beinir orðum sínum til stjórnvalda.

Ríkissáttasemjari hefur nú þegar boðað fund strax á morgun, aðeins tveimur dögum eftir síðasta fund, og getur það gefið vísbendingar um að skriður sé að koma á málið. 

Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, segist vona að kjaradeilan fari að leysast, en segir þó litla hreyfingu vera á viðræðunum.

„Jafnvel þó maður sæi ljós í myrkrinu þá eru þetta flóknir samningar sem ekki væri hægt að klára á einum eða tveimur dögum,“ segir hann. „Við viljum fara í umtalsverðar breytingar á kjarasamningunum í heild sinni, sem hefur verið í óbreyttu formi lengi.

„Ef samninganefnd ríkisins fær klárt umboð til að koma til móts við kröfurnar á þann hátt sem við teljum að sé samningsgrundvöllur, þá gæti það verið að eitthvað fari að greiðast úr þessu, en það verður að koma í ljós.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert