Smálánafyrirtækin breyta ekki þjónustu sinni

Peningar
Peningar mbl.is/Golli

Áfrýjunarnefnd neytendamála hefur staðfest ákvörðun Neytendastofu um að smálánafyrirtækin Kredia og Smálán hafi brotið gegn lögum um neytendalán með innheimtu kostnaðar fyrir flýtiafgreiðslu lánshæfismats. Smálánafyrirtækin tvö ætla ekki að breyta þjónustu sinni.

Í júní s.l. tók Neytendastofa ákvarðanir gagnvart öllum smálánafyrirtækjum þar sem stofnunin komst að þeirri niðurstöðu að gjald fyrir flýtiafgreiðslu teldist hluti af heildarlántökukostnaði og skyldi því taka tillit til þess við útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar (ÁHK). Samkvæmt lögum um neytendalán má ÁHK ekki vera hærra en 50% að viðbættum stýrivöxtum en með því að gjald fyrir flýtiafgreiðslu sé innifalið í ÁHK verður hún mun hærri.

Fyrirtækin kærðu ákvarðanir til áfrýjunarnefndar neytendamála sem hefur nú staðfest ákvörðun Neytendastofu gagnvart Kredia og Smálánum.

Smálánafyrirtækin Smálán og Kredia sendu frá sér samhljóða tilkynningu vegna úrskurðarins. Í henni segir að fyrirtækin telji ákvörðun Neytendastofu ekki í samræmi við lög um neytendalán nr. 33/2013 og að þau hyggist leita til dómstóla með málið.

 „Í dag er boðið upp á tegund lána sem eftirsótt eru af stórum hópi neytenda og henta sérstaklega við ákveðnar aðstæður. Við viljum ekki bregðast þessum hópi viðskiptavina okkar með því að hætta að veita þá þjónustu sem nú er í boði.
 
Þrátt fyrir að við teljum niðurstöðu Neytendastofu ranga þá komu fram við meðferð málsins ábendingar varðandi skýrleika í skilmálum okkar og munum við taka þær ábendingar til skoðunar. 

Þjónustu verður haldið áfram með sama hætti  og áður þar til endanleg niðurstaða dómstóla liggur fyrir og munum við hlíta henni, sama hver hún verður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert