97% nothæfi án „neyðarbrautar“

Reykjavíkurflugvöllur úr lofti.
Reykjavíkurflugvöllur úr lofti. Árni Sæberg

Nothæfisstuðull Reykjavíkurflugvallar út frá viðmiðum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) yrði 97% án flugbrautar 06/24 eða „neyðarbrautarinnar.“ Þetta kemur fram í annarri tveggja skýrslna sem verkfræðistofan EFLA hefur lokið við að vinna um Reykjavíkurflugvöll fyrir Isavia.

Önnur skýrslan var unnin á grundvelli tilmæla ICAO sem fyrst og fremst eru hugsuð sem viðmið við valkostagreiningu á nýjum flugvöllum. Í öðru lagi var unnin skýrsla um nothæfistíma fyrir flugvélar af gerðinni Fokker 50 og Beechcraft King Air 200 sem notaðar eru í reglubundnu áætlunar- og sjúkraflugi á Reykjavíkurflugvelli.

Niðurstöður EFLU eru að nothæfisstuðull Reykjavíkurflugvallar út frá viðmiðum ICAO verði 97,0% án flugbrautar 06/24. Viðmiðun ICAO er 95%. Sé miðað við nothæfistíma, sem er nákvæmari greining þar sem miðað er við lendingarskilyrði út frá vindi, ástandi flugbrauta, skyggni og skýjahæð, verður hlutfall þess tíma þegar aðstæður til lendinga henta þörfum áætlunarflugs á Fokker 50 98,05% en Beechcraft King Air 98,18% án brautarinnar.

Umfangsmestu skýrslur um notkun Reykjavíkurflugvallar

Skýrslurnar voru unnar í kjölfar athugasemda Samgöngustofu við drög að áhættumati Isavia sem unnið var í kjölfar óska innanríkisráðherra um að Isavia hæfi undirbúning að lokun flugbrautarinnar. Skýrslurnar eru þær umfangsmestu sem gerðar hafa verið um notkun Reykjavíkurflugvallar. Gögnin sem stuðst er við eru umfangsmeiri og nákvæmari en í fyrri skýrslum. Munar þar mestu um að fyrir 9 árum síðan var komið upp fjórum vindmælum við flugbrautirnar  sem eykur verulega nákvæmni mælinga auk þess sem vindhraði og stefna skráist á 15 sekúndna fresti.

Skoðaðar voru allar lendingar Fokker 50 og Beechcraft King Air 200 á Reykjavíkurflugvelli á tveggja og hálfs árs tímabili frá 1. mars 2012 til 1. september 2014. Lendingar Fokker 50 voru samtals 11.538 en af þeim voru 70 á flugbraut 06/24 eða 0,61%. Lendingar Beechcraft King Air 200 voru samtals 1.659 en af þeim voru 23 á braut 06/24 eða 1,39%.

Greining EFLU leiðir í ljós að í flestum tilvikum var hliðarvindur lægri á flugbraut 06/24 þegar lent var á henni en á öðrum brautum. Sama greining sýnir einnig að þrátt fyrir það hefði í öllum tilvikum verið unnt að lenda á öðrum brautum ef hemlunarskilyrði hefðu verið með besta hætti, þ.e. samkvæmt mæligildinu „gott/þurrt“. Með mótvægisaðgerðum væri því hægt að halda flugvellinum opnum í mörgum þeim tilfellum þar sem hliðarvindur er hærri á öðrum flugbrautum en 06/24.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert