Fá ekki annan fastan heimilislækni

Vilhjálmur Ari hefur sagt starfi sínu lausu.
Vilhjálmur Ari hefur sagt starfi sínu lausu. Þorkell Þorkelsson

„Skjólstæðingar sem koma til mín þessa dagana eru leiðir,“ segir Vilhjálmur Ari Arason læknir, sem sagði starfi sínu á heilsugæslustöðinni Firði lausu í vikunni, aðspurður um viðbrögð við fréttum af uppsögn hans.

Þrjú til fjögur þúsund einstaklingar eru skráðir á stöðina en hafa ekki fastan heimilislækni. Skjólstæðingar Vilhjálms Ara fá ekki annan heimilislækni þegar í stað þegar hann hættir, heldur er þeim sinnt af bestu getu af þeim sem eftir eru. 

„Ég vona að einhver komi og sinni þeim. Ég er búinn að vinna í heilsugæslunni í 25 ár og ætlaði að halda áfram í þessu fagi. Það verður líka að hugsa um hvar maður þrífst best starfsánægjunnar vegna,“ segir Vilhjálmur Ari. Þegar einhver fer frá deilast sjúklingar læknisins á stöðinni til þeirra sem eftir eru.

„Þeir fá ekki annan fastan heimilislækni, þeir eru allir fullsetnir. Þeir sjúklingar sem hafa heimilislækni fá þó heilsteyptari þjónustu. Maður reynir að forgangsraða sínum skjólstæðingum og fylgja þeim betur eftir.“

Vilhjálmur Ari segir að mikil umræða sé á facebooksíðunni Raddir íslenskra lækna og einnig á lokuðum spjallþræði lækna. „Samstaðan er ótrúleg, hvar sem er í kerfinu,“ segir hann. Hann segist þó ekki hafa fengið viðbrögð frá stjórnendum heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við uppsögninni.

Vilhjálmur Ari vill ekki gefa upplýsingar um næstu skref sín á vinnumarkaðinum, þ.e. eftir að hann hættir störfum í Firði. „Ég horfi í kringum mig, ég er ekki á flæðiskeri staddur með vinnu. Ég get unnið erlendis en gef ekkert ákveðið upp með það. Ég hef unnið á bráðamóttöku LSH hingað til og reikna með að ílengjast eitthvað þar. Það fer eftir því hver þróunin verður í heilbrigðismálum nú almennt talað.“

„Sjúklingar deyja að óþörfu“

Pistlar Vilhjálms Ara Arasonar en þar hefur hann meðal annars fjallað um kjaramál lækna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert