Skjót viðbrögð komu í veg fyrir stórslys

Skjót viðbrögð geta breytt öllu á ögurstundu.
Skjót viðbrögð geta breytt öllu á ögurstundu. mbl.is/Árni Sæberg

Mikill eldur kom upp í timburgámi fyrir framan Post-Hostelið á Seyðisfirði í gærmorgun um klukkan 04:30. Þegar slökkvilið var kallað út kom í ljós að slökkvibíllinn á svæðinu var rafmagnslaus. Skjót viðbrögð vakthafandi varðstjóra gerðu það þó að verkum að slökkvistarfið gekk vel og hægt var að ráða niðurlögum eldsins hratt og örugglega.

Baldur Pálsson, slökkvistjóri á svæðinu, segir um hræðilegt óhapp hafa verið að ræða sem sýni að allt geti gerst. „Við vorum með æfingu í lok síðasta mánaðar og þá var slökkvibíllinn í fullkomnu lagi, en annar rafgeymirinn hefur eyðilagst og þá fara þeir ekki í gang,“ segir hann.

Varðstjóri brást hratt og örugglega við

Baldur segir vandamálið vera þekkt, en bílarnir eru alltaf í sítengingu, þ.e.a.s. þeir eru alltaf tengdir hleðslutæki, en sá búnaður getur orðið til þess að geymirinn gefi sig. „Við vorum alveg klár á því miðað við aldur þessa geyma að þetta myndi ekki gerast á næstunni. En það er afar erfitt að komast að í þessum bílum sem búið er að byggja svona mikið yfir til að prófa þá, og auk þess sýndu mælarnir góða stöðu í lok síðasta mánaðar.“

Vakthafandi varðstjóri, Njörður Guðmundsson, brást hratt við að sögn Baldurs, og framkvæmdi neyðaráætlun sem gekk fullkomlega upp. „Það er þannig á Seyðisfirði að það er mjög góður vatnsþrýstingur á kerfinu og við erum með varadælu. Þeir ákváðu það þó þegar þeir komu á svæðið að fara aðra leið og notast við brunahana og höfðu því nóg til að slökkva í heilum gámi.“

Gámurinn, sem stóð um tvo metra frá húsinu, var opinn og fullur af brennanlegu efni sem hent hafði verið út úr húsinu daginn áður, þar sem framkvæmdir höfðu staðið yfir. Vaktmaður í ferjuhúsinu á Seyðisfirði sá eldlogana, en þegar slökkviliðið mætti á vettvang var sprungin rúða á efri hæð hússins og eldurinn að taka húsið að sögn Baldurs.

„Ljóst að um íkveikju var að ræða“

Logn og snjókoma var á svæðinu þegar eldurinn kom upp, og segir Baldur því augljóst að ekki hafi kviknað í að sjálfu sér. „Það er alveg ljóst að um íkveikju var að ræða og það er það alvarlega í þessu máli,“ segir hann. Lögreglan á svæðinu rannsakar nú brunann. 

Baldur segir atvik sem þessi vera þau sem slökkviliðsmenn óttist mest, og því sé alltaf gert plan B í öllum æfingum. „Það getur alltaf gerst að slökkvibíll bilar. En það er mjög erfitt að greina þetta fyrirfram nema skipta um geymi á einhverra ára fresti. Það gæti verið lausnin en við verðum að skoða þetta nánar.“

Þá segir hann tvo slökkvibíla hafa verið til taks á Egilsstöðum, en skjót viðbrögð Njarðar hafi gert það að verkum að ekki þurfti að senda þá á svæðið. Loks segir hann mál sem þessi alltaf koma mönnum í opna skjöldu, en lærdómurinn sem hægt sé að draga af þeim sé gríðarlegur.

Post-Hostelið á Seyðisfirði.
Post-Hostelið á Seyðisfirði. Ljósmynd/Booking.com
Seyðisfjörður.
Seyðisfjörður. Steinunn Ásmundsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert