Fagna samkeppninni til Keflavíkur

Morgunblaðið/Kristinn

Á nýju ári verður hægt að taka strætó frá Reykjavík til Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Mun það kosta 1400 krónur og taka rúman klukkutíma. Markaðsstjóri Gray Line Iceland, sem selur rútuferðir á milli borgarinnar og flugvallarins fagnar samkeppninni.

Gray Line Iceland og Reykjavík Excursions eru þau félög sem bjóða núna upp á rútuferðir frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar til höfuðborgarsvæðisins. Kostar farið 1950 krónur með Reykjavík Excursions og 1900 krónur með Gray Line Iceland. 

Sam­tök sveit­ar­fé­laga á Suður­nesj­um munu reka strætisvagnanna sem keyra frá höfuðborgarsvæðinu til Reykja­nes­bæj­ar, Voga­af­leggj­ara, Grinda­vík­ur, Garðs, Sand­gerðis og loks Flug­stöðvar Leifs Ei­ríks­son­ar.

„Það vekur sérstaka athygli að þessir sömu aðilar, það er Samtök Sveitafélaga á Suðurnesjum, höfðu áður boðað að fargjaldið yrði 1950 krónur, en það var á þeim tíma þegar þeir ætluðu sér að halda einkaleyfi á akstrinum,“ segir Sigríður Heiðar, markaðsstjóri Gray Line Iceland í samtali við mbl.is.

„Þarna sést vel hvað samkeppnin gerir, þeir hafa nú lækkað verðið niður í 1400 krónur og neytendur geta þakkað samkeppninni þá lækkun og að þessum aðilum tókst ekki að fá einkaleyfi á akstri til og frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar.“

Sigríður segir að Gray Line Iceland fagni samkeppninni en geri um leið þá kröfu að ekki verði um niðurgreiddan rekstur að ræða í samkeppninni. „Strætó bs. og SSS fá milljarða á ári í styrk til að halda uppi almenningssamgöngur fyrir íbúa a sínum svæðum. Við teljum að þessir aðilar ættu leggja meiri áherslu á að tengja byggðarkjarnana á Suðurnesjum við flugstöðina og nýta ríkisstyrkinn frekar í það,“ segir Sigríður að lokum.

Ekki náðist í fulltrúa Reykjavík Excursions við vinnslu þessarar fréttar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert