„Reconsider“ var „endurskoða“

Frétt Grapevine um samskipti blaðamanna við upplýsingfulltrúa ríkisstjórnarinnar.
Frétt Grapevine um samskipti blaðamanna við upplýsingfulltrúa ríkisstjórnarinnar. Skjáskot/Grapevine

„Ég upplifi það nú ekki þannig að það hafi verið farið út fyrir nein mörk, það tel ég ekki vera,“ segir Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, um samskipti sín við Grapevine.

Í grein sem birtist á vef fjölmiðilsins í gær er sagt frá samtölum milli Sigurðar og starfsmanns Grapevine, sem fóru fram í síma og tölvupósti. Í samtölunum gerði Sigurður m.a. athugsemdir við frétt eftir Nönnu Árnadóttur sem birtist sama dag, m.a. varðandi fyrirsögn fréttarinnar og staðhæfingu um fjölda aðstoðarmanna Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, sem höfð var eftir DV.

Sigurður segist fyrst og fremst hafa sett sig í samband við Grapevine til að leiðrétta staðhæfinguna um fjölda aðstoðarmanna ráðherra. „Við höfðum sett inn á vefinn hjá okkur í forsætisráðuneytinu athugasemd, útaf frétt um aðstoðarmenn sem var á forsíðu Fréttablaðsins í vikunni. Mér fannst eins og blaðamanni hefði ekki verið kunnugt um það,“ segir Sigurður.

Í frétt Grapevine, PM Ditches Parliament To Go On Holiday, Doesn't Tell Anyone, kemur fram að aðstoðarmenn og ráðgjafar forsætisráðherra séu sjö í allt, en samkvæmt athugasemdinni á vef ráðuneytisins eru aðstoðarmenn Sigmundar tveir og aðstoðarmenn ríkisstjórnarinnar sem hafa aðsetur í forsætisráðuneytinu tveir. Þá starfar í forsætisráðuneytinu, sem sérstakur ráðgjafi forsætisráðherra, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, en tveir starfsmenn ráðuneytisins sem tilgreindir voru í Fréttablaðinu heyra undir ráðuneytisstjóra og starfa að tímabundnum og afmörkuðum verkefnum.

„Ég hélt að ég væri nú bara að benda þeim á upplýsingar sem gætu nýst þeim við fréttaskrif. Það stóð líka í fyrirsögn: „pm ditches parliament and doesn´t tell anyone“, ef ég rifja það upp; „forsætisráðherra stingur af og segir engum“. Mér fannst það svolítið bratt í ljósi umræðunnar, eða þeirra upplýsinga sem höfðu þó verið settar út um það,“ segir Sigurður.

Hann segir ekki rétt að engin hafi vitað um fjarveru forsætisráðherra. „Ríkisstjórnin vissi af þessu og stjórnarráðið vissi af þessu. Það er s.s. allur gangur á því hvort menn setja sig inn á þennan fjarvistalista á þinginu, en eins og kom fram í svari mínu; fyrir mistök var það ekki gert,“ segir Sigurður en ítrekar að megin ástæðan fyrir því að hann hafði samband við Grapevine hafi verið til að koma upplýsingunum um aðstoðarmennina á framfæri.

Sigurður segist ekki minnast þess að hann hafi sakað blaðamann Grapevine um hlutdrægni og öll samskipti milli hans og blaðsins hafi verið undirskrifuð með vinsemd og virðingu.

Þess ber að geta að Sigurður átti ekki samskipti við viðkomandi blaðamann, Nönnu Árnadóttur, heldur blaðamanninn Gabríel Benjamín, en það er þriðji blaðamaðurinn, Haukur Már Helgason, sem skrifar fréttina Gov't Press Secretary Urges Grapevine to "Reconsider" PM Holiday Story, sem birtist á vef Grapevine í gær.

Hvað varðar notkun hans á orðinu sem Grapevine þýðir sem „reconsider“ segist Sigurður hafa notað orðið „endurskoða“, og þá í sambandi við staðhæfinguna um aðstoðarmennina og ráðgjafana sjö.

Í frétt Hauks Má er einnig sagt frá því að Sigurður hafi gagnrýnt að Nanna hafi deilt frétt sinni á Twitter, þar sem það bryti gegn óskráðum siðareglum blaðamanna. Þá hafi Sigurður einnig sagt að tíst Nönnu væru „hostile“, þ.e. óvinveitt eða fjandsamleg.

Sigurður segir ekkert við það að athuga að blaðamenn séu virkir á Twitter en setur spurningamerki við hvernig þeir deila fréttum sínum. Í tilfelli blaðamanns Grapevine hafi skoðun fylgt þegar fréttinni var deilt.

„Ég geri enga athugsemd við að fjölmiðlamenn séu á samfélagsmiðlum og taki þátt í umræðu með alls konar formerkjum, það er hins vegar pínulítil lína kannski, myndi ég halda, hvernig þeir tala um eigin fréttir þegar þær eru komnar á samfélagsmiðlana,“ segir Sigurður. „En þessi hlutlægnissjónarmið, það er kannski vandasamt og varasamt að ræða við fjölmiðlamenn almennt um það. Ég játa það. Kannski maður hafi bara tamið sér of afslappaðan stíl í því.“

Sigurður segist ekki víkja sér undan því að hann hafi verið að koma ákveðnum sjónarmiðum á framfæri en segist ekki leggja það í vana sinn að öskra á menn um að breyta hlutum eða hafa í hótunum við þá. Hann viðurkennir einnig að hann hafi sagt að sér fyndist DV ekki alltaf áreiðanleg heimild.

„Ég upplifi það nú ekki þannig að það hafi verið farið út fyrir nein mörk, það tel ég ekki vera. Fjölmiðlar hljóta náttúrulega að tala þátt í samtölum um sín verk, það er enginn hafinn yfir gagnrýni. Menn hljóta að geta talað við þá og sett fram sín sjónarmið,“ segir Sigurður. „Ég talaði aldrei við þennan Hauk, ef ég hefði hringt í hann og verið með hótanir eða slíkt.. það var ekki. En ef fjölmiðlum finnst óþægilegt að það sé í þá hringt og þeirra verk rædd bara á almennan hátt, þá er það dálítið erfitt við að eiga.“

Uppfært kl. 22.16: Þess ber að geta að í frétt DV, þar sem fjallað er um þá starfsmenn forsætisráðuneytisins sem Grapevine kallar „aðstoðarmenn og ráðgjafa“, talar blaðamaður DV um „pólitískt skipaða starfsmenn“.

Sigurður Már Jónsson er upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar.
Sigurður Már Jónsson er upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar.
Í frétt Nönnu Árnadóttur er sagt frá því að á …
Í frétt Nönnu Árnadóttur er sagt frá því að á meðan umræður og atkvæðagreiðslur um fjárlagafrumvarpið 2015 stóðu yfir í vikunni, var forsætisráðherra erlendis í fríi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert