Breytingar á yfirstjórn Árvakurs

Haraldur Johannessen.
Haraldur Johannessen. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Stjórn Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, ákvað á fundi sínum í dag að ráða Harald Johannessen, ritstjóra Morgunblaðsins, í starf framkvæmdastjóra Árvakurs frá næstu áramótum þegar Óskar Magnússon, útgefandi Morgunblaðsins, mun láta af störfum, eins og áður hefur verið greint frá. Haraldur mun gegna starfi framkvæmdastjóra samhliða ritstjórastarfinu. Davíð Oddsson verður áfram ritstjóri, en þeir Haraldur hófu störf á sama tíma og hafa nú verið ritstjórar í rúm fimm ár.

Á fundi sínum ákvað stjórnin einnig þær breytingar á skipulagi yfirstjórnar Árvakurs að ritstjórar Morgunblaðsins og framkvæmdastjóri Árvakurs heyri beint undir stjórn félagsins. Staða útgefanda, sem verið hefur í skipuriti Árvakurs frá árinu 2009, hefur verið lögð niður.

Haraldur Johannessen, sem er hagfræðingur, hefur langa reynslu af starfi á fjölmiðlum, auk ýmissa annarra starfa. Hann hefur starfað sem blaðamaður á viðskiptablaði Morgunblaðsins og var ritstjóri Viðskiptablaðsins á árunum 2007-2009. Á árunum 2008-2009 gegndi hann starfi framkvæmdastjóra útgáfufélags Viðskiptablaðsins samhliða starfi ritstjóra.

Um ráðningu Haraldar í starf framkvæmdastjóra Árvakurs og breytingar á skipulagi yfirstjórnar félagsins segir Sigurbjörn Magnússon, stjórnarformaður: „Stjórn Árvakurs ber fullt traust til Haraldar og væntir mikils af honum nú þegar hann kemur bæði að rekstri og ritstjórn auk þess sem við teljum að með þessu náist fram ákveðin hagræðing.“

Í tilefni þessara breytinga segir Haraldur: „Fjölmiðlar um allan heim standa frammi fyrir nýjum og breyttum tímum, nýrri tækni og þeim breytingum í rekstrarumhverfinu sem þessu fylgja. Að auki glímir Árvakur við séríslenskar markaðsaðstæður. Þess vegna er mikil og spennandi áskorun að stýra þessu fyrirtæki og ég mun leggja mig allan fram um að viðhalda traustum rekstri þess og efla það til framtíðar. Í sameiningu eiga Morgunblaðið og mbl.is sér langa og glæsilega sögu sem áreiðanlegir og uppbyggilegir fjölmiðlar sem hafa mikla þýðingu fyrir land og þjóð. Markmið mitt og annarra sem á þessum miðlum starfa er að svo verði áfram um ókomna tíð.“

Sigurbjörn Magnússon.
Sigurbjörn Magnússon. Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert