Braut ítrekað gegn nálgunarbanni

Nálgunarbannið var framlengt.
Nálgunarbannið var framlengt. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Vesturlands um að framlengja beri nálgunarbann sem karlmaður sætti fram til maí 2015 en því var fyrst komið á þann 22. maí síðastliðinn og átti að renna út 13. nóvember. Er ekki talið að friðhelgi eiginkonu mannsins verði tryggt með öðrum hætti.

Fram kemur í úrskurði Héraðsdóms Vesturlands að konan hafi búið við heimilisofbeldi í tíu ár. Hafi maðurinn meðal annars tekið af henni vegabréf svo hún kæmist ekki úr landi.

Frá því í maí hafa lögreglu borist tilkynningar vegna brots á nálgunarbanninu. Meðal annars hafi verið óskað eftir aðstoð lögreglu í sundlaug þar sem maðurinn hafði í hótunum við konuna og hótaði að „stúta“ henni og vini hennar.

Lögreglustjórinn á Akranesi telur að hætta sé á því að maðurinn brjóti gegn konunni sæti hann ekki nálgunarbanni. Verndarhagsmunir standi til þess að tryggja konunni og börnum hennar þann rétt að geta hafst við á heimili sínu og geta verið óhult gagnvart yfirvofandi ófriði af hálfu mannsins.

Á það féllust bæði héraðsdómur og Hæstiréttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert