Svava Johansen þarf ekki að borga

Svava Johansen og Björn K Sveinbjörsson.
Svava Johansen og Björn K Sveinbjörsson. mbl.is/Árni Sæberg

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað hjónin Svövu Johansen og Björn K. Sveinbjörnsson af kröfum nágranna þeirra í Fossvoginum. Nágrannarnir fóru fram á 1,5 milljón króna vegna skemmda á húsi þeirra sem haldið var fram að ætti rætur að rekja til framkvæmda á lóð og fasteign Svövu og Björns.

Lögmaður nágrannanna hélt því fram að jarðvegsframkvæmdir hefðu kallað á umferð þungra ökutækja auk þess sem lóð Svövu og Björns hafi verið grafin upp á svæði, niður á um fjögurra metra dýpi, með stórvirkum vinnuvélum.

Þessar framkvæmdir hafi orðið þess valdandi að nær allir innveggir hús nágrannanna hafi sprungið, flísar losnað af veggjum og gólfi, innrétting á baðherbergi skekkst og gliðnað frá vegg og rennihurð að baðherbergi skekkst. Utanhúss hafi trépallur sunnan við húsið runnið fram um 10 cm og hellulögn riðlast og sigið svo og sólstofa, sem byggð hafi verið við húsið.

Í niðurstöðu héraðsdóms segir að fyrir liggi og er óumdeilt að Svava og Björn fengu öll tilskilin leyfi fyrir framkvæmdunum við fasteignina, þar á meðal umræddar jarðvegsframkvæmdir. Þá öfluðu þau samþykkis nágranna fyrir framkvæmdunum. „Þá liggur ekki annað fyrir en að staðið hafi verið að framkvæmdum á lóð stefndu, þ. á. m. við þjöppun jarðvegs, á faglegan hátt og stefndu sýnt þá aðgát við framkvæmdina, sem af þeim varð krafist.

Hafa stefnendur ekki sýnt fram á eða gert sennilegt að tjón þeirra vegna titrings frá framkvæmdunum verði rakið til gáleysis stefndu. Verða stefndu því sýknuð af kröfum stefnenda í máli þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka