Íslendingarnir verða ekki sektaðir

Hér má sjá mynd af slá Vegagerðarinnar sem notuð er …
Hér má sjá mynd af slá Vegagerðarinnar sem notuð er til að loka vegum. Ljósmynd/Vegagerðin

Ekkert bendir til þess að ökumenn bifreiðanna tveggja sem ekið var yfir Öxnadalsheiðina aðfaranótt miðvikudagsins í þessari viku fái sekt fyrir að aka yfir  heiðina. Vegurinn var lokaður á þessum tíma vegna ófærðar.

Lægðir hafa dunið á landinu síðustu daga með mikilli ofankomu í formi snjós, slyddu og rigningu. Síðastliðinn þriðjudag var mörgum vegum lokað vegna ófærðar, meðal annars öllum vegum sem liggja til og frá höfuðborgarsvæðinu og þá var Öxnadalsheiðinni lokað rétt fyrir klukkan 18 vegna ófærðar.

Slárnar teknar í notkun síðasta vetur

Líkt og mbl.is greindi frá í gær óskuðu átta Íslendingar eftir aðstoð þegar í ljós kom að þau komust ekki ferðar sinnar um Bakkaselsbrekkuna sem liggur niður af heiðinni. Snjór hafði safnast í skafla á veginum og gekk á með dimmum éljum. Fólkið sagðist ekki hafa séð lokun Vegagerðarinnar þegar það ók upp á heiðina en lögregla sagði í samtali við mbl.is að fólkið hefði virt allar merkingar og lokanir að vettugi.

Síðastliðinn vetur hóf Vegagerðin notkun sláa sem settar eru yfir hægri helming vegar þegar veginum er lokað vegna ófærðar. Á skiltinu kemur fram að vegurinn sé lokaður og þá segir einnig að „auk sektar gæti akstur framhjá þessu skilti haft í för með sér umtalsverðan kostnað“ þurfi ökumaður á aðstoð að halda.

Áður komu upplýsingar um lokaða vegi aðeins fram á færðakorti Vegagerðarinnar sem hægt er að nálgast á heimasíðu hennar. Jafn óheimilt er að aka um vegi sem lokaðir eru vegna ófærðar í dag og áður en slárnar komu til en ákveðið var að taka þær í notkun þar sem nokkuð var um að ökumenn virtu ekki lokanir.

Þannig má það einnig vera ökumanninum ljóst að hann er í þann mund að aka inn á veg þar sem líkur eru á að hann gæti lent í vandræðum.

Tíðkast ekki að sekta fyrir þetta brot

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Akureyri hefur ekki tíðkast hingað til að sekta ökumenn fyrir að fara inn á vegi sem sagðir eru lokaðir vegna ófærðar. Í vetur munu eflaust fleiri mál koma til kasta lögreglu þar ökumenn aka um vegi sem hefur verið lokað með slá en það er höndum lögreglu að kæra ökumenn fyrir brotin.

Líkt og kom fram í frétt mbl.is um málið í gær sögðust Íslendingarnir sem þurfu að aðstoð að halda ekki hafa séð slána sem sett var yfir hægri akrein vegarins en þau óku úr Skagafirðinum upp á heiðina.

Sigurður Jónsson, yfirvegsstjóri á Akureyri, segir að það sé á hreinu að slárnar hafi verið settar upp. Í mynd sem fylgir fréttinni má sjá slá sem sett er upp ef Hellisheiðinni er lokað og er hún sambærileg þeirri sem sett er upp við Öxnadalsheiði.

Þess má geta að samkvæmt mælum Vegagerðarinnar á Öxnadalsheiði var aðeins tveimur bifreiðum ekið yfir Öxnadalsheiðina frá kl. 18 þann 16. september til kl. 7 miðvikudagsmorguninn 17. september ef björgunarsveitarbílarnir þrír sem fóru þeim til aðstoðar eru frátaldir.

Ætla má að það hafi verið bílar Íslendinganna átta sem lögðu á heiðina þrátt fyrir að hún væri lokuð vegna ófærðar. Aðrir virðast ekki hafa átt erindi yfir  heiðina eða einfaldlega virt merkingar og snúið við.  

Frétt mbl.is: Segjast ekki hafa séð lokunina

Átta björgunarsveitarmenn á þremur bílum fóru og aðstoðuðu fólkið.
Átta björgunarsveitarmenn á þremur bílum fóru og aðstoðuðu fólkið. Ljósmynd/Sigurður Ó. Sigurðsson/Landsbjörg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert