Mikið tjón í eldsvoða í Grindavík

Fjölmennt lið slökkviliðsmanna og björgunarsveitarfólks hefur verið að störfum síðan í gærkvöldi að berjast við eld í fiskþurrkun Stakkavíkur við höfnina í Grindavík. Ásmundur Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík, segir það ljóst að tjónið er mikið.

Að sögn Ásmundar var slökkviliðið í Grindavík kallað út á ellefta tímanum í gærkvöldi vegna elds í fiskþurrkuninni en þar er meðal annars skreiðarþurrkun. Um hálf tólf leytið var síðan leitað eftir aðstoð frá brunavörnum Suðurnesja sem sendi fjölmennt lið á staðinn enda mikill eldur og erfiðar aðstæður í stóru húsi. 

Enn er verið að slökkva í glæðum og rífa síðustu sperrurnar í þaki hússins að sögn Ásmundar en tekist hefur að bjarga hluta hússins. 

Nánar verður fjallað um eldsvoðann á mbl.is í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert