Talið að mótor hafi brunnið yfir

Frá eldsvoðanum.
Frá eldsvoðanum. Ljósmynd/Svavar Þór Svavarsson

„Slökkviliðið er ennþá á vettvangi og ég hef ekkert komist þarna inn,“ segir Aðalsteinn Sæmundsson, framleiðslustjóri Staðarþurrkunar ehf., í samtali við mbl.is en eldur kom upp í gærkvöldi í hausaþurrkun fyrirtækisins við höfnina í Grindavík. Fyrirtækið er til helminga í eigu Aðalsteins og útgerðarfyrirtækisins Stakkavíkur ehf.

Aðalsteinn segir ljóst að tjónið sé mikið en erfitt sé að gera sér almennilega grein fyrir því á þessari stundu. Fulltrúar tryggingafélagsins séu á leiðinni á staðinn og rannsókn eigi eftir að fara fram á eldsupptökum. Talið sé að eldurinn hafi komið upp í þurrkklefum. Hugsanlegt sé að einhver af móturunum þar hafi brunnið yfir. En það eigi allt eftir að koma í ljós.

„Við sendum bara fólkið heim í morgun,“ segir Aðalsteinn en vinnu í húsinu lauk klukkan 16:00 í gær og átti að hefjast aftur klukkan 7:00 í morgun. Vinnsla hafi verið á fullu í húsinu og mikið hráefni í því. Enginn var í húsinu þegar eldurinn kom upp.

„En það er náttúrulega ljóst að þetta stoppar í einhvern tíma. Maður veit ekki nákvæmlega hversu mikið tjón þetta er eða hversu langan tíma þetta tekur. Það er eiginlega allt í óvissu eins og er,“ segir hann. „Það er djöfullegt að lenda í þessu.“

Frétt mbl.is: Slökkvistarfi að ljúka

Frétt mbl.is: Mikið tjón í eldsvoða í Grindavík

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert