Sex kvenmorð á tuttugu árum

Á síðustu tuttugu árum hafa að minnsta kosti átta konur verið myrtar hér á landi. Þar af voru sex svokölluð kvenmorð, en kvenmorð eru almennt skilgreind sem morð á konum þar sem kynferði fórnarlambsins er meginorsök verknaðarins.

Kemur þetta fram í meistaraprófsritgerð Bjarndísar Hrannar Hönnudóttur, meistaranema í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, sem hún vann upp úr rannsókn á málefninu.

Í samtali um þetta efni í Morgunblaðinu í dag segir Bjarndís að í rannsókninni hafi hún athugað átta dómsmál og hvort þau uppfylltu þau skilyrði sem kvenmorð falla undir.

„Til að mynda athugaði ég hvort gerandinn ætti sér sögu um ofbeldi gegn konum og einnig hvort í málinu kæmu fram tilteknar feðraveldishugmyndir hjá gerandanum, svo sem um ætluð yfirráð og forréttindi karla,“ segir Bjarndís, en athygli vekur að morðin eiga ríka tengingu við skilnaði á milli maka.

„Næstum öll morðin áttu sér stað í kjölfar skilnaðar eða í skilnaðarferlinu sjálfu, sem rímar við þær rannsóknir sem gerðar hafa verið erlendis.“

Oftast saga um andlegt ofbeldi

Bjarndís segir að saga ofbeldis í umræddum samböndum hafi ekki einungis verið líkamlegs eðlis.

„Í raun var mun oftar um að ræða mikið andlegt og tilfinningalegt ofbeldi í sambandinu, og mörg vitni sögðu að konurnar hefðu að miklu leyti verið kúgaðar. Slíkt er ekki hægt að kæra til lögreglu og flest samböndin sem um ræðir höfðu því ekki komið við sögu hjá lögreglu fyrr en morðin höfðu verið framin.“

Fangelsisrefsingar í málunum sex náðu allt frá fimm árum til 18 ára, en algengasta refsingin var fangelsisdómur til 16 ára.

Bjarndís segir að sér hafi komið á óvart hversu auðvelt það var fyrir gerandann að sverta fórnarlambið, konuna, í dómsal.

Framhjáhald lækkar refsingu

„Það sem gerandinn sagði var oft tekið gilt án þess að innt væri eftir vitnum til að votta hans frásögn. Þannig háir það þessum málum mikið að einungis annar aðilinn í sambandinu er til frásagnar. Í einum dóminum var það metið manninum til refsilækkunar að konan hans hafði haldið framhjá honum. Hann var þó einn til frásagnar um það, sem hlýtur að vekja spurningar.“
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert