Gekk berfættur til að fá aðstoð

Allt tiltækt lið slökkviliðsins á Akureyri var kallað út vegna eldsvoða á bænum Bjargi í Eyjafjarðarsveit á fjórða tímanum í nótt. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Akureyri voru þrír fluttir á Sjúkrahúsið á Akureyri til aðhlynningar. 

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á Akureyri barst tilkynning frá manni sem komst við illan leik út úr húsinu og gekk berfættur á næsta bæ, um 500 metra, til að biðja um aðstoð.

Þegar slökkviliðið kom á staðinn var neðri hæð húsins full af reyk. Reykkafarar björguðu tveimur konum út úr húsinu. Fólkið var flutt á slysadeild vegna gruns um reykeitrun og til nánari skoðunar.

Skemmdir á húsinu eru töluverðar en vel gekk að ráða niðurlögum eldsins að sögn varðstjóra. Ekki er vitað um upptök eldsins að svo stöddu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert