Ung hjón urðu Jólakettinum að bráð

Ungu hjónin Nótt Thorberg Bergsdóttir og Sigurjón H. Ingólfsson ásamt …
Ungu hjónin Nótt Thorberg Bergsdóttir og Sigurjón H. Ingólfsson ásamt dóttur þeirra Óttu.

Ung hjón í Vesturbæ Reykjavíkur urðu fyrir því óláni í gær að týna myndbandsupptökutæki sínu rétt um það leyti sem kirkjuklukkurnar hringdu inn jólahátíðina. Voru hjónin ásamt ungri dóttur á leið til messu í Fríkirkjunni þegar tækið týndist.

„Við gengum frá Stýrimannastíg niður Öldugötu og Ægisgötu að Landakotskirkju. Þar uppgötvuðum við að snuðið hennar hafði gleymst heima svo að maðurinn minn hleypur af stað til baka og líklegast er að tækið hafi dottið úr vösum hans á leiðinni. Þarna vantaði klukkuna aðeins þrjár mínútur í sex svo við vorum alveg á síðasta snúning,“ segir Nótt Thorberg í samtali við mbl.is.

Það var svo ekki fyrr en hjónin voru komin í Fríkirkjuna að þau uppgötvuðu að upptökutækið var horfið. Fór eiginmaður Nætur, Sigurjón, þá aftur út til að leita að tækinu.

„Hann kom svo í kirkjuna við lok athafnarinnar og hafði þá ekkert fundið þrátt fyrir mikla leit. Eftir athöfnina leituðum við svo á gönguleiðinni með vasaljósi og spurðumst fyrir á nokkrum hótelum í grennd en enginn kannaðist við neitt,“ segir Nótt.

Aðspurð segir hún að jólaborðhaldið hafi hafist seint og um síðir. „Við byrjuðum ekki að borða jólamatinn fyrr en klukkan var að verða tíu. Við erum heldur ekki búin að opna jólapakkana. Dóttir mín var að vakna núna klukkan ellefu en hún hefur aldrei sofið svona lengi frameftir.“

Nótt segir tjónið vera að mestu tilfinningalegt. „Um er að ræða Canon upptökutæki sem ég gaf Sigurjóni í fyrra þegar dóttir okkar var enn ófædd. Við höfum notað það síðan þá til að taka myndbönd af fyrsta árinu hennar í þessum heimi. Sárastur er missirinn af þeim upptökum.“

Lenti upptökutækið í klóm kattarins?

Hjónin Sigurjón og Nótt Thorberg sendu eftirfarandi frásögn af aðfangadagskvöldinu til mbl.is:

Þegar kirkjuklukkur hringdu inn jólin í gærkvöldi lét jólakötturinn á sér kræla í Vesturbæ Reykjavíkur. Ung hjón á leið í kirkju með barnunga dóttur sína, er fæðst hafði fyrr á árinu, voru komin hálfa leið fótgangandi í kirkjuna þegar að uppgötvaðist að sú stutta hafði gleymt snuddunni sinni.

Af tillitsemi við aðra kirkjugesti var afráðið að heimilisfaðirinn skyldi sækja þarfaþingið enda ljóst að án snuddunnar  myndi helgihald taka á sig aðra og háværari mynd. Húsbóndi heimilisins, sem hafði nýlokið við að taka upp myndbrot af fjölskyldunni á leið í kirkju, hljóp því af stað heim að sækja snuðið enda var klukkan óðfluga að nálgast sex.

Í aðdraganda jólanna hafði fjölskyldan fylgt hefðum í jólaundirbúningi og hafði húsmóðirin af því tilefni lagt mikla áherslu á að barnið skyldi klætt í ný föt þannig að það yrði ekki jólakettinum að bráð. Þó sögum um jólaköttinn beri ekki saman er það flestum kunnugt að jólakötturinn fylgist vel með jólaundirbúningnum og til eru frásagnir af þeim "sem farið hafa í jólaköttinn" af þeirri ástæðu einni að klæðast ekki nýjum fötum um jólin.

Hjónin höfðu því lagt mikið upp úr því að klæða þá litlu í nýtt dress frá toppi til táar enda gersemi fjölskyldunnar. Meira að segja hafði húsfreyjan lagt sig fram við að klára að hekla síðustu flíkina rétt eftir hádegi á aðfangadag.  Eins og margir þekkja var því um margt að snúast á lokametrum jólaundirbúningsins og gleymdist þannig algerlega að huga að fatnaði hjónanna sjálfra. Hins vegar fór það þó engan veginn framhjá jólakettinum.

Þegar fjölskyldan gekk um dyr kirkjunnar uppgötvaðist til mikillar skelfingar að upptökuvélin var horfin úr vasa húsbónda. Leit í vösum og vagni báru engan árangur. Móðir og barn settust á kirkjubekk á meðan heimilisfaðirinn hljóp aftur sem leið lá heim, nú að leita að upptökuvélinni. Fáir voru á stjá en tækið var hvergi að sjá. Að lokinni messu hélt leitin áfram hjá móður og föður því enda þótt tækið sjálft væri ekki verðmætt bar það ómetanlegar minningar frá fyrsta ári dóttur þeirra.

Leitin bar að lokum engan árangur og fjölskyldan hélt því heim á leið. Hjónin voru miður sín og settust nú til borðs með dóttur sinni mun seinna en ráðgert hafði verið. Eftir miklar vangaveltur um afdrif tækisins við borðhaldið rann það nú upp fyrir ungu hjónunum að fjölskyldan hlyti að hafa orðið fyrir barðinu á jólakettinum eða eins og segir í kvæði Jóhannesar úr Kötlum: "Hann sveimaði, soltinn og grimmur í sárköldum jólasnæ, og vakti í hjörtunum hroll á hverjum bæ". Stóra spurningin var því sú – er jólakötturinn orðinn tæknivæddur? 

Ef einhver nær að grípa tækið úr klóm kattarins má hinn sami hafa samband við netfrett@mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert