Breskur metsöluhöfundur með „Íslandssýki“

David Mitchell.
David Mitchell. PAUL STUART

„Ef Ísland kemur ekki ímyndunaraflinu í gang er ekkert sem gerir það. Jarðfræðin hefur líka áhrif, þarna eru öflin sem skapa jörðina svo augljós. Þau eru beint fyrir framan nefið á þér og ef þú varar þig ekki geta þau drepið þig,“ segir breski metsöluhöfundurinn David Mitchell sem tekur hefur ástfóstri við Ísland og segist vera haldinn Íslandssýki.

Mitchell er einn af vinsælustu samtímahöfundum Bretlands og hafa tvær bóka hans, number9dream og Cloud Atlas komist á svokallaðan stuttlista Man Bokker-bókmenntaverðlaunanna. Cloud Atlas var færð í kvikmyndaform og skartaði leikurum á borð við Tom Hanks, Halle Berry og Jim Broadbent.

Í nýjustu bók rithöfundarins, The Bone Clocks, sem einnig er tilnefnd til Man Booker-verðlaunanna í ár, kemur Ísland talsvert við sögu en ein sögupersónan fer í bókinni til Íslands til að tala á Bókmenntahátíð í Reykjavík og notar tækifærið til að skoða landið í leiðinni, þar á meðal Ásbyrgi og Þingvelli. Sá kafli er að miklu leyti byggður á upplifun Michell sjálfs af veru hans hér á landi en Mitchell hefur tvisvar heimsótt Íslands til að skoða söguslóðir Íslendingasagnanna og hefur skrifað um þær fyrir breska blaðið The Independent. Hann fer bráðlega í þriðja sinn í heimsókn til Íslands að eigin sögn.

Mitchell hefur lesið talsvert af íslenskum bókmenntum, meðal annars Sjón og Íslendingasögurnar, sem hann segist telja formæður alls skáldskapar. „Ég er ekki frá því að margt sé líkt með frásögninni í The Bone Clocks og frásagnartækni Íslendingasagnanna, þar sem stokkið er óvænt milli staða, nýjar persónur skyndilega kynntar til leiks með löngum aðdraganda áður en í ljós kemur hvernig þær tengjast atburðarásinni.“

Nánar má lesa um upplifun Mitchell af Íslandi og skrifum hans í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert