Eldur kviknaði í kertaskreytingu

Slökkviliðið var með mikinn viðbúnað. Mynd úr safni.
Slökkviliðið var með mikinn viðbúnað. Mynd úr safni. mbl.is/Styrmir Kári

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var með mikinn viðbúnað rétt fyrir kl. 22 í kvöld eftir að tilkynning barst um eld í húsi á Seltjarnarnesi. Betur fór en á horfðist og reyndist eldurinn minniháttar og skemmdir þar af leiðandi litlar.

Að sögn varðstjóra hjá SHS kviknaði eldur í kertaskreytingu á eldhúsborði í einbýlishúsi í bæjarfélaginu. Enginn var heima en húsið var tengt við öryggiskerfi sem gaf frá sér boð. Starfsmenn Securitas gerðu slökkviliði viðvart sem sendi dælubíla og sjúkrabíla á staðinn. 

Þegar slökkviliðsmenn komu á vettvang var starfsmaður öryggisfyrirtækisins á staðnum og það kom í ljós að eldurinn var staðbundinn. Engan sakaði og skemmdir urðu minniháttar sem fyrr segir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert