Nærri tvöfalt fleiri sviptir forsjá

Halldóra Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, segist ekki hafa séð jafnmikla …
Halldóra Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, segist ekki hafa séð jafnmikla aukningu á forsjársviptingum áður. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Töluverð fjölgun hefur orðið á dómsmálum þar sem Reykjavíkurborg fer fram á að foreldrar séu sviptir forsjá barna sinna. Formaður dómstólaráðs segir í samtali við RÚV að þetta gæti verið ein afleiðing efnahagshrunsins.

Eftir efnahagshrunið var dómurum í héraði fjölgað um fimm og eru því 43 talsins. Sú fjölgun var tímabundin og átti að renna úr gildi um áramót en fyrir skemmstu framlengdi Alþingi hana um ár.

Símon Sigvaldason, formaður dómstólaráðs, segir að enn sé mikið álag á dómstólum vegna mála sem tengjast efnahagshruninu. En álagið hafi líka aukist vegna annarra mála. „Það er annars vegar forsjársviptingamál, þ.e.a.s. þar sem barnaverndaryfirvöld eru að gera kröfu á forsjársviptingu. Þeim málum hefur fjölgað talsvert upp á það síðasta án þess að við sjáum neinar beinar skýringar á því. Síðan eru það mál sem tengjast útlendingum, þ.e.a.s. þegar þeim er vísað af landi brott. Þeir geta skotið slíkum niðurstöðum til dómstóla til endurskoðunar og þeim málum hefur líka fjölgað talsvert hjá okkur,“ segir Símon.

Halldóra Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, segist ekki hafa séð jafnmikla aukningu á forsjársviptingum áður. Málin séu nánast tvöfalt fleiri í ár en í fyrra. Áður en hún geti fullyrt að efnahagshrunið hafi þessi áhrif, þurfi að rannsaka það. „Það getur vel verið að hluta til, hversu illa gengur að ná samkomulagi og sátt í málum, tengist því vantrausti sem hefur komið fram í kjölfar hrunsins á kerfum, á opinberum aðilum,“ segir Halldóra.

En skýringarnar séu vafalaust fleiri. „Það er gríðarleg neysla í sumum tilvikum og okkur finnst málin vera þyngri, flóknari og alvarlegi heldur en áður. Það er vímuefnaneysla af öllu tagi og töluvert mikil lyfjaneysla líka, þá á lyfseðilsskyldum lyfjum,“ segir Halldóra, í samtali við RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert