Varað við úrkomu og vatnavöxtum

Veðurstofan spáir mikilli rigningu sunnan og vestanlands á morgun mánudag og fram á þriðjudag auk hlýinda um allt land. Búast megi við mestri úrkomu í kringum fjöll og jökla sunnan og vestanlands. Sólarhringsafrennsli (samanlögð úrkoma og snjóbráðnun) þar gæti farið vel yfir 100 mm.

Varað er við vexti í ám á Snæfellsnesi, kringum Eyjafjalla- og Mýrdalsjökul og við sunnanverðan Vatnajökul. Vöð yfir ár á þessum svæðum geta orðið varhugaverð. Vegna hlákunnar er íbúum á landinu bent á að huga að og hreinsa ís frá niðurföllum og frárennsli til að forða því að vatnselgur valdi tjóni.

Sunnanáttin sem veldur hlákunni er hvöss og má búast við að hún nái stormstyrk (meira en 20 m/s) þar sem hún steypir sér niður af fjöllum um landið vestanvert og norðanvert samfara mjög snörpum vindhviðum. Síðdegis á morgun dregur hins vegar úr vindi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert