Menning séð í gegnum linsu á gamalli filmuvél

Kvikmyndagerðarkonan Yrsa Roca Fannberg hefur verið á töluverðu flakki síðustu mánuði í tengslum við kynningu heimildarmyndar sinnar Salóme . Myndin hefur hlotið verðlaun á borð við Best Nordic Documentary á kvikmyndahátíðinni Nordisk Panorama. Yrsa hefur nýtt tímann vel á ferðalögunum og tekið áhugaverðar ljósmyndir á gamla filmuvél, meðal annars í Teheran og Sarajevó.

Yrsu er margt til lista lagt og ljóst er að hún er óhrædd við að feta ótroðnar slóðir. Það sást til dæmis skýrt í myndinni Salóme sem sýnd var í Bíó Paradís fram að jólum og verður á dagskrá RÚV að kvöldi 4. janúar nk. Myndin fjallar um samband Yrsu við móður sína og er afar persónuleg heimildarmynd. Myndin hefur verið sýnd í Þýskalandi, Spáni og Kólumbíu og vakið athygli á hinum ýmsu kvikmyndahátíðum og nú síðast í Póllandi, Íran og Bosníu og Hersegóvínu. Ætli Yrsa myndi ekki seint teljast endurspegla hinn hefðbundna ferðalang og því er gaman að fá að birta nokkrar ljósmyndir og brot úr ferðasögu hennar. Við byrjum í Szcecin í Póllandi. „Þetta er bær sem er á landamærum Póllands og Þýskalands. Hann er dálítið eins og þýskur bær nema aðeins fátækari og lítið búið að gera hana upp,“ segir Yrsa sem tók nokkuð af áhugaverðum myndum í Szcecin.

Andinn í Sarajevó

Næst á eftir Póllandi lá leiðin yfir til Sarajevó og segir Yrsa að heimsóknin þangað hafi verið áhrifarík. „Ég var náttúrlega ekki rétt klædd því þar var skítakuldi. Klukkan sex á kvöldin kom alltaf upp mikil lykt því þá var farið að kynda húsin og allt „barbikjúið“ farið af stað þannig að það er dálítið spes lykt sem kemur með kvöldinu,“ segir hún. Íbúar Sarajevó eru um 300.000 talsins. „Maður finnur voðalega mikið fyrir stríðinu ennþá. Íslendingar gera allt út á náttúruna í ferðamennskunni en þarna er stríðið notað og það er dálítið sérstakt.“ Hún segist hafa fundið að unga fólkið væri komið með nóg af stríðsferðamennskunni. „Unga fólkinu finnst það ekkert hafa með stríðið að gera. Ég segi þetta út frá sjónarhorni þess sem hefur bara verið þarna í þrjá daga,“ segir Yrsa. Fólkið segir hún að sé afar vingjarnlegt og á því megi greina vissa þrautseigju. Það kom Yrsu á óvart hve víða voru alls kyns sölubásar. „Á hverju götuhorni var fólk að selja nánast hvað sem var, eins og maðurinn með blöðrurnar sem ég tók mynd af.“ Áhugavert er að í þessari borg þar sem eitt sinn var hörmulegt stríð virðist fólk nú geta búið í sátt og samlyndi. „Þarna búa gyðingar, kaþólikkar, ortódoxar og múslimar. Öll búa þau saman í borg og virðast gera það í sátt, samlyndi og friði,“ segir Yrsa.

Saklausa gamla filmuvélin

Næsti áfangastaður á eftir Sarajevó var Teheran og um leið og Yrsa steig út úr flugvélinni setti hún upp slæðuna, eins og lög gera ráð fyrir. „Í Teheran er lítil ánægja með að maður taki myndir og fullt af hlutum sem bannað er að taka myndir af. Geri maður það er von á að einhver hermaður komi og það getur verið rosalegt vesen,“ segir Yrsa sem lenti þó ekki í nokkrum vandræðum þrátt fyrir fjölda óskrifaðra reglna sem ómögulegt er að læra á fáeinum dögum. „Lífið úti á götu er náttúrlega allt öðruvísi en lífið fyrir innan luktar dyr. Þar eru konurnar ekki með slæður og fötin eru önnur hjá millistéttinni en yfirstéttinni.“

Alþjóðlega heimildamyndahátíðin í Teheran, Cinema Vérité, var haldin í áttunda skipti og er að sögn Yrsu ákaflega mikilvæg fyrir heimamenn. Hátíðin er ríkisstyrkt og haldin með leyfi yfirvalda. Hún væri ekki haldin ef ekki væri fyrir það fé og því mikilvægt að hún fari vel fram til að unnt sé að halda hana í framtíðinni. „Það er líka verið að sýna myndir sem eru á mörkunum, til dæmis sumar pólitískar myndir. Þetta er einstakt tækifæri fyrir marga til að hitta aðra kvikmyndagerðarmenn og þannig skiptir hátíðin miklu máli fyrir fólk sem býr þarna.“ Þegar Yrsa fór út til að taka myndir var iðulega einhver sendur með henni til að gæta þess að allt færi vel fram. „Honum leiddist alveg hræðilega á meðan ég var að mynda einhverja ketti úti á götu. Svo var ég að taka mynd af einhverju mótorhjóli og fyrir aftan það var einhver bygging sem mátti mynda þannig að þar kom maður út og vildi sjá myndina en þegar maður tekur á filmu er náttúrlega svolítið erfitt að sýna myndina,“ segir Yrsa sem slapp í þetta skiptið. „Svo er það líka þannig að ef maður er með gamla filmuvél þá er hún álitin saklaus. Þeir eru fyrst og fremst hræddir við fréttamenn og þessar stóru aðdráttarlinsur,“ segir kvikmyndagerðarkonan Yrsa Roca Fannberg um þetta áhugaverða ferðalag þar sem hún festi ýmislegt óvenjulegt á filmu. Fleiri ljósmyndir er að finna á síðu Yrsu, www.yrsarocafannberg.info.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert