Inflúensan komin af stað

Það er ekki of seint á láta bólusetja sig við …
Það er ekki of seint á láta bólusetja sig við inflúensu. AFP

Fyrstu tilfelli inflúensu þennan veturinn greindust hér á landi um hátíðirnar. Þetta staðfestir Þórólfur Guðnason, staðgengill sóttvarnarlæknis í samtali við mbl.is. Jafnframt greindust fyrstu tilfelli RS-veirunnar um jólin.

„Þetta eru þær veirusýkingar sem koma á hverjum vetri  og yfirleitt á þessum tíma,“ segir Þórólfur. „Inflúensan fer að herja á landsmenn á komandi vikum, hún byrjar yfirleitt hægt en fer síðan á skrið.“

Þórólfur segir að um 10 til 15% þjóðarinnar smitist af inflúensu í hverjum umgangi. „Hún er yfirleitt ekki alvarleg hjá frískum einstaklingum en þeir sem eru með undirliggjandi vandamál eins og lungna- eða hjartasjúkdóma geta fengið alvarlega inflúensu. Þess vegna hvetjum við fólk til þess að láta bólusetja sig og það er ekki of seint að láta gera það núna þó að hún sé byrjuð að greinast.“

RS-veiran herjar einkunn á lítil börn og getur verið þungbær á þau yngstu að sögn Þórólfs. „RS-veiran herjar á öndunarfærin og lýsir sér í kvef og hósta. Getur hún einnig valdið astmaeinkennum hjá litlum börnum,“ segir Þórólfur. „Það getur verið ansi erfitt og stundum þarf að leggja lítil börn á sjúkrahús.“

RS-veiran er smitandi og er ekki til bóluefni gegn henni. 

„En að öðru leyti eru þessar venjulegu pestir í gangi. Má þar nefna öndunarfærasýkingar og niðurgangspestar sérstaklega. En þetta er bara eins og venjulega,“ segir Þórólfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert