Eins og kjarnorkusprengja hafi sprungið

Sex rúður í húsi Guðmundar sprungu þegar tertan sprakk í …
Sex rúður í húsi Guðmundar sprungu þegar tertan sprakk í nótt. mbl.is/Eggert

„Það var eins og kjarnorkusprengju hefði verið varpað hingað. Fólk lá í götunni og börn grétu og hlupu í allar áttir. Þetta var mjög dramatískt móment og mikið sjokk,“ segir Guðmundur Aðalsteinsson, íbúi á Bergstaðastræti 29 þar sem öflug sprengja sprakk klukkan korter í 12 á miðnætti. 

Um var að ræða gallaða skottertu í eigu fjölskyldu Guðmundar sem sprakk á jörðinni. „Þetta var bara venjuleg kaka og fyrstu fimm skotin fóru upp eðlilega en svo sprakk restin bara í einum hvelli. Þetta voru örugglega hundrað skot sem voru eftir og 38 kíló af púðri sem fóru þarna í einum rykk.“

Tjón á húsum í kring og skurður í andliti

Við hvellinn sprungu sex rúður í húsi Guðmundar, tvær í húsinu á móti og ein í húsinu við hliðina. Þá sprakk hurðarhúnninn á útidyrahurðinni í húsinu á móti, auk þess sem bárujárnið á húsi Guðmundar beyglaðist og dældir mynduðust. Kirfilega fastar myndir á veggjum í öllum húsunum losnuðu og ýmist smádót brotnaði.

Auk þess fékk Guðmundur, sem stóð í um 12 metra fjarlægð frá sprengjunni er hún sprakk, skurð í andlit og þurfti að sauma þrjú spor. Hann segist ekki vita hvort hlutur úr sprengjunni hafi skotist í sig eða orsökin einfaldlega verið krafturinn, en gleraugu hans brotnuðu jafnframt.

„Svo stóðum við undir gluggunum og það rigndi yfir okkur glerbrotum. Fólk hefði getað slasast mikið og það var fullt af börnum á svæðinu svo þetta var alveg rosalegt. Maður má bara þakka fyrir að ekki fór verr,“ segir hann, og bætir því við að heyrnin sé enn ekki komin að fullu leyti til baka eftir hvellinn. „Það pípir í öllu ennþá.“

„Það þarf að skoða öryggið í þessu“

Guðmundur segir fólk úr sinni fjölskyldu hafa átt skottertuna, sem var keypt af íþróttafélaginu Leikni. „Þetta hefur verið eitthvað mjög gallað og það þarf að skoða öryggið í þessu. Við erum búin að tala við Leikni en höfum svosem ekkert heyrt meira í þeim né í tryggingafélaginu,“ segir hann og veltir því upp hvort eðlilegt sé að leyfa slíkar stærðarinnar tertur í íbúðarhverfum.

Guðmundur segir lögreglu hafa mætt á svæðið stuttu síðar og tekið skýrslur. Þá hafi viðgerðarmaður mætt á svæðið um klukkan þrjú í nótt til að loka gluggunum með hlerum. „En tryggingafélagið hefur ekki látið sjá sig ennþá,“ segir hann.

Atvikið setti strik í reikninginn í áramótagleðskapnum, en Guðmundur segir partíið hafa klárast snemma. „Við vorum bara hér að þrífa glerbrotin í húsinu langt fram eftir nóttu. Svo voru settir hlerar fyrir gluggana en við erum búin að reyna að kynda upp svo það sé ekki jafnkalt í húsinu.“

Sauma þurfti þrjú spor í andliti Guðmundar.
Sauma þurfti þrjú spor í andliti Guðmundar. Ljósmynd/Guðmundur Aðalsteinsson
Tjón varð á þremur húsum í kring vegna sprengjunnar.
Tjón varð á þremur húsum í kring vegna sprengjunnar. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert