Glímdu við lögmál eðlisfræðinnar

Flygildin sveimuðu um húsakynni HR.
Flygildin sveimuðu um húsakynni HR. mbl.is/Ægir
<span>Fyrirtækið OZ stóð í gær fyrir svokölluðu hakkaþoni eða forritunarkeppni á flygildum þar sem 20 keppendur fengu tækifæri til að forrita flygildi eftir eigin höfði. Í upphafi dags fengu keppendur loftförin ómönnuðu til umráða og gátu þá látið ímyndunaraflið ráða hvað flygildið gat gert í lok dags.</span> <span>Keppnin felst í því að forrita flygildi með forritunarmálinu JavaScript en það forritunarmál notar OZ mikið í vöruþróun sinni. Keppendur voru allt frá sérfræðingum í iðnaðinum til áhugamanna í forritun en keppnin fylltist mjög fljótt og komust færri að en vildu, samkvæmt tilkynningu frá OZ.</span>

Flygildi sem borðtenniskúla

Dagný Lára Guðmundsdóttir var einn þátttakenda í hakkaþoninu en hún var ásamt þremur öðrum í teymi. Í samtali við mbl.is segir Dagný að hugmynd teymisins hafi verið að nota flygildið sem borðtenniskúlu sem færi á milli leikmanna í nokkurskonar borðtennisleik.

„Hugmyndin var fyrst að láta myndavél drónans nema rauðan lit svo við mættum með málningu og pensla til öryggis, til að mála hendurnar rauðar og fá hann þannig til að stoppa og snúa við, eins og kúla sem lendir á spaða,“ segir Dagný.

„Svo datt okkur í hug að leysa þetta á þann veg að við kæmum bara við hann og þá myndi hann skynja snertinguna og snúa við, en þá komu upp fleiri vandamál sem þurfti að leysa eins og hvort ætti að láta hann notast við reikning á hraða eða hreinlega gráðum til að kastast á milli leikmanna,“ segir Dagný og bætir við að möguleikarnir séu fjölmargir.

„Það er hægt að gera alls konar og til dæmis um það vorum við einnig að hugsa hvort við ættum að láta hann elta leysigeisla en hin hugmyndin varð ofan á,“ segir Dagný.

Fjölbreyttur hópur þátttakenda

Hún bendir á að mjög fjölbreyttur hópur fólks hafi tekið þátt í keppninni. „Margir eru í tölvunarfræði í HÍ og HR en það er líka mikið af fólki úr atvinnulífinu, til dæmis rafeindavirkjar, forritarar og meira að segja einn doktor í tölvunarfræði, sem er mjög gaman að segja frá,“ segir Dagný, en sjálf er hún nemi í tölvunarfræði við Háskóla Íslands og mun útskrifast í vor.

Sveinn Fannar Kristjánsson, forritari hjá OZ og einn af skipuleggjendum hakkaþonsins, segir að keppnin hafi gengið framar vonum.

„Þetta gekk svo ótrúlega vel að ég hugsa að við gerum þetta alveg örugglega aftur,“ segir Sveinn og bætir við að um sé að ræða tímamót fyrir forritunarkeppnir hér á landi. „Það hafa verið haldin ýmis hakkaþon á Íslandi en að mínu mati er þetta fyrsta hakkaþonið sem gerir eitthvað svona töff, að láta þátttakendum í té þyrlur til að leika sér með og frelsi til að kanna möguleika þeirra.“

„Lögmál eðlisfræðinnar vilja stundum grípa inn í“

Keppnin stóð frá klukkan tíu í gærmorgun til klukkan sjö um kvöldið. Keppendur höfðu því ekki mikinn tíma til stefnu en þeim gafst þó kostur á að mæta vel undirbúnir til keppninnar.

„Keppendur gátu undirbúið sig fyrir keppnina en oft getur reynst erfitt að fullvissa sig um að kóðinn virki á drónann sjálfan, því lögmál eðlisfræðinnar vilja stundum grípa inn í þegar maður ætlar að keyra þetta í alvöru,“ segir Sveinn.

Þátttakendum gafst kostur á að mynda þriggja til fjögurra manna teymi en ekki var keppt til sigurs í hakkaþoninu. „Við ákváðum að hafa ekki keppnisfyrirkomulag til að hvetja þátttakendur til að skiptast frjálslega á upplýsingum og hjálpa hver öðrum. Í stað þess að krýna sigurvegara þá vildum við frekar hafa kynningu í lokin þar sem öll teymin fengju að sýna sínar pælingar og hvað þau væru að aðhafast,“ segir Sveinn og bætir við að einnig geti verið erfitt að segja til um hvort ein hugmynd sé betri en önnur.

Greinir andlit og eltir þau

„Þegar svona hugmyndavinna er annars vegar þá er ómögulegt að stilla mismunandi hugmyndum upp á skala frá núll upp í tíu.“ Sveinn bendir þó aðspurður á áhugaverða hugmynd sem kom upp í hakkaþoninu.

„Eitt teymið kom með hugmynd að drón sem var hægt að stjórna með Xbox fjarstýringu og fór hann mjög hratt yfir. Þá var myndavél á honum og þegar hann fann fólk þá gat hann greint andlit og til dæmis sagt til hversu margt fólk væri samankomið í hóp. Einnig gat dróninn fundið ákveðið andlit og byrjað að elta það,“ segir Sveinn og bætir kíminn við að þessi tækni gæti mögulega hljómað ískyggilega fyrir lesendur mbl.is.

Geta gert flotta hluti á skömmum tíma

„Yfirleitt tíðkast á hakkaþonum sem þessum að byggja á kóða sem er þegar til staðar í opnum kóðasöfnum, jafnvel úr mörgum áttum, og kubba þá að vissu leyti saman. Þá getur maður á tiltölulega stuttum tíma gert ótrúlega flotta hluti með því að sameina ólíklegustu kóða.“

Í tilkynningu frá OZ segir að markmið keppninnar sé að auka áhuga og þekkingu á forritun með því að búa til raunverulega áskorun sem keppendur hafi ákveðinn tíma til að leysa, en OZ efndi til keppninnar í samstarfi við JavaScript samfélagið á Íslandi.

Forritunarkeppnir sem þessar eru vel þekkt fyrirbrigði erlendis þar sem þær þykja skemmtilegar og lærdómsríkar fyrir keppendur á sama tíma og þær hvetja til skapandi hugsunar og nýsköpunar.

Dagný Lára ásamt flygildinu, eða borðtenniskúlunni.
Dagný Lára ásamt flygildinu, eða borðtenniskúlunni. mbl.is/Ægir
Keppendur kynntu niðurstöður sínar fyrir hvor öðrum.
Keppendur kynntu niðurstöður sínar fyrir hvor öðrum. mbl.is/Ægir
Keppendur kynna afrakstur dagsins.
Keppendur kynna afrakstur dagsins. mbl.is/Ægir
Sveinn Fannar Kristjánsson.
Sveinn Fannar Kristjánsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert