Reynt að blekkja lánveitendur

Veðlánasvikum fer fjölgandi á fasteignamarkaði.
Veðlánasvikum fer fjölgandi á fasteignamarkaði. mbl.is/Ómar Óskarsson

Grunur leikur á að veðlánasvik á fasteignamarkaði hafi færst í vöxt að undanförnu og að í sumum tilfellum leggi kaupendur fram falskt eigið fé til að standast greiðslumat.

Greiðslumatið var hert með nýjum lögum um neytendalán sem tóku gildi síðla árs 2013. Í umfjöllun um mál þetta í ViðskiptaMogganum í dag staðfestir Sigurður Erlingsson, forstjóri Íbúðalánasjóðs,  að veðlánasvik séu til skoðunar hjá sjóðnum.

„Eftir hrun hefur þessum málum fjölgað,“ segir Sigurður og útskýrir hvernig veðlánasvikin ganga fyrir sig. Lánastofnun, til dæmis Íbúðalánasjóður, láni fyrir 80-85% af kaupvirði. Seljendalán brúar svo bilið. Síðarnefnda lánið er þá sýndarlán og er ávinningur kaupandans sá að fá í raun 100% lán frá lánveitanda til kaupanna og fara þannig fram hjá lögbundnu hámarki lánshlutfalls.

Samkvæmt heimildum blaðsins leikur jafnframt grunur á að dæmi séu um seljendur láni kaupendum fjármagn í nokkra daga þannig að þeir geti sýnt fram á „falskt“ eigið fé meðan á greiðslumati stendur.

Það gengur svo til baka til seljanda og er endanlegt kaupverð því annað en kemur fram á kaupsamningi. Það getur aftur haft áhrif á tölur um þróun fasteignaverðs á Íslandi. Þá sætir það tíðindum á fasteignamarkaði að seljendalánum af hálfu húsbyggjenda, verktaka jafnt sem fjárfesta, fer fjölgandi.

Sérfræðingur á fjármálamarkaði sem óskaði nafnleyndar taldi það eiga þátt í þessari aukningu að lánshæfismat hefði þrengt svigrúm til lántöku. Þá geti slík lán tryggt hærra söluverð fasteigna en ella.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert