Björgvin í meðferð og verður ekki ritstjóri

Björgvin G. Sigurðsson.
Björgvin G. Sigurðsson.

Björgvin G. Sigurðsson hefur ákveðið að fara í meðferð vegna áfengisneyslu. Þetta kemur fram á vefnum Herðubreið.is, þar sem Björgvin hafði verið ráðinn sem ritstjóri. Í viðtali á vefnum segir Björgvin að hann muni af þessum sökum ekki taka að sér starf ritstjóra.

Í frétt á vef Herðubreiðar segir: 

„Hluta þess sem nú er orðið að fréttaefni má vitaskuld rekja til dómgreindarbrests sem stafar án efa af viðvarandi og óhóflegri áfengisneyslu um nokkurra missera skeið,“ segir Björgvin. „Ég hafði ákveðið að leita aðstoðar á göngudeild þar sem ég hafði óskað eftir meðferð og hugðist sinna vinnu meðfram því, en eftir áföll síðustu daga er mér ljóst að ég þarf meiri hjálpar við.

Ég hef því ákveðið að leita mér lækninga á Vogi frá og með næsta miðvikudegi og fara í fulla meðferð við áfengissýkinni. Ég hætti að drekka fyrir 10 árum og það gekk vel í nokkur ár en í róti síðustu ára fór ég að misnota það aftur í vaxandi mæli.

Ég geri ekki lítið úr því að hafa farið gegn reglum við útgjöld í starfi, en hafna því alfarið að um fjárdrátt eða ásetningsbrot hafi verið að ræða. Það er fjarri lagi. Öll fjárútlát voru uppi á borðum, rækilega skráð og öll fylgiskjöl til staðar. Það var því engin tilraun gerð til að leyna einu eða neinu, en vissulega hefði ég ekki átt að fara út fyrir þær heimildir sem ég hafði. Ég hef beðist afsökunar á því og ítreka það hér með.

Mér þykir ákaflega leitt hvernig þessi mál hafa þróast, ekki síst í ljósi samkomulags um starfslok, þar sem engar ásakanir koma fram um neitt misjafnt. Það breytir þó ekki hinu, að orsakanna er fyrst og fremst að leita hjá sjálfum mér. Ég vil ráða bót á því og ætla að leita aðstoðar í því skyni, sjálfs mín og fjölskyldu vegna.“

Frétt Herðubreiðar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert