Vilja afnema bann við guðlasti

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Rósa Braga

Þingmenn Pírata hafa lagt fram frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum þess efnis að 125. grein laganna, sem kveður á um refsingar fyrir guðlast, falli brott. Fyrsti flutningsmaður er Helgi Hrafn Gunnarsson.

Lagagreinin hljóðar svo: „Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum. Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.“ Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að tjáningarfrelsið sé einn af hornsteinum lýðræðis. Það sé grundvallaratriði í frjálsu samfélagi að fólk geti tjáð skoðanir sínar án ótta við refsingar af nokkru tagi. Hvort heldur sem sé um yfirvöld að ræða eða aðra.

„Fólk hefur ólíka sýn á lífið og því er viðbúið að tjáning sem einn telur eðlilega telji annar móðgandi. Sem betur fer eru upplifanir fólks af lífinu og tilverunni afskaplega ólíkar. Því er með öllu óraunhæft að ætla mannlegum hugsunum, tilfinningum og skoðunum að rúmast alltaf innan ramma svokallaðs almenns velsæmis.“ Ennfremur er skírskotað til árásinnar á franska dagblaðið Charlie Hebdo í París, höfuðborg Frakklands, fyrr í mánuðinum í því sambandi.

Frumvarpið í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert