Eftirlit í ósamræmi við matvælalöggjöf EES

Eftirlit með gögnum sem bændur setja inn í gagnagrunninn er …
Eftirlit með gögnum sem bændur setja inn í gagnagrunninn er ekki nægilegt til að hægt sé að ábyrgjast að þau séu trúverðug. mbl.is/Sigurður Bogi

Opinbert eftirlit með auðkenningu og skráningu nautgripa á Íslandi er ekki í fullu samræmi við matvælalöggjöf evrópska efnahagssvæðisins (EES). Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) sem birtist í dag.

Helstu niðurstöður úttektar, sem ESA gerði á Íslandi í nóvember 2014, eru að EES löggjöf á þessu sviði hafi verið innleidd á fullnægjandi hátt. Rafrænn gagnagrunnur (Huppa) er notaður til að skrá nautgripi og Matvælastofnun hefur eftirlit með að gögn sem þar eru skráð séu áreiðanleg.  Lítil reynsla er þó komin á það eftirlit og skráning er á frumstigi.  Einstakir nautgripir eru eyrnamerktir og skylt er að merkja nautakjötsafurðir í samræmi við EES löggjöf.

Íslenski gagnagrunnurinn hefur enn ekki verið tekinn út og samþykktur af Eftirlitstofnun EFTA. Því þarf að gefa út skilríki fyrir hvern einstakan grip.  Þeirri skyldu var ekki fullnægt á þeim tíma sem úttektin fór fram. Eftirlit með gögnum sem bændur setja inn í gagnagrunninn er ekki nægilegt til að hægt sé að ábyrgjast að þau séu trúverðug og í samræmi við kröfur EES-samningsins. Eftirlitskerfið með framleiðslu nautgripabænda er ekki áhættumiðað eins og krafa er um samkvæmt EES löggjöf.

Íslensk stjórnvöld hafa tekið athugasemdir ESA til greina og lagt fram tímasetta aðgerðaráætlun. Áætlunin og athugasemdir íslenskra stjórnvalda koma fram í viðauka 3 við skýrsluna og eru til skoðunar hjá ESA.

Lokaskýrsluna má finna hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert