Íslendingur opnaði ár ljóssins

Myndskeið sem Ólafur Haraldsson, íslenskur gagnvirkur hönnuður, gerði í samstarfi við danskan félaga sinn var notað við opnun og lok opnunarhátíðar Sameinuðu þjóðanna vegna árs ljóssins sem fór fram í París í vikunni. Nóbelsverðlaunahafar voru á meðal þeirra sem sóttu ráðstefnuna sem þá var haldin.

Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst því yfir að árið 2015 verði ár ljóssins og tækni sem byggir á ljósi. Opnunarhátíð þess og ráðstefna fór fram í París nú í vikunni. Myndskeið Ólafs og Danans Kristians Ulrich Larsen var upphaflega gert fyrir danska ríkið í tengslum við vindorkuvæðingu þar í landi, að sögn Ólafs.

„Það er svolítið síðan þetta myndskeið var unnið en svo var haft samband við okkur og spurt hvort mætti nota það til að opna ár ljóssins. Okkur tveimur var boðið út. Okkur var tilkynnt þegar við mættum að það ætti að opna hátíðina sem og vera sýnt aftur, og við vorum á staðnum í báðum tilvikum,“ segir hann.

Ólafur segir það gífurlega spennandi og upphefð að komast inn hjá SÞ og UNESCO, menntunar-, vísinda- og menningarstofnun þeirra, og að fá að taka þátt í ári ljóssins.

„Við mættum, fylgdumst með og hittum fullt af fólki. Þetta er náttúrulega heilmikil ráðstefna. Það voru fjórir eða fimm Nóbelsverðlaunahafar og ég sá að minnsta kosti ræðu hjá einum, efnafræðingnum Ahmed Zewail, sem var gaman að fá að hlusta á,“ segir Ólafur.

Markmið þessa hjá Sameinuðu þjóðunum með ári ljóssins er að bæta skilning almennings á því hvernig ljós og tækni sem byggir á ljósi snertir líf okkar allra og að ýta undir frekari þróun á þessu sviði til vistvænnar framtíðar. Helstu áherslusvið þessa átaks verða á sviði orkumála, menntunar, landbúnaðar og heilbrigðismála.

Hér fyrir neðan má sjá myndskeið Ólafs og Larsen með tónlist Moby og orðum uppfinningamannsins Nikola Tesla. Tónlistin og orðin voru ekki notuð á ráðstefnu SÞ en frumsamin tónlist var undir myndskeiðinu þegar það var sýnt þar.

Heimasíða Ólafs Haraldssonar

Vefsíða árs ljóssins

Passing Through from Olafur Haraldsson on Vimeo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert