Margrét fékk „hótun“ frá Tansaníu

Meðlimir Pegida í Þýskalandi.
Meðlimir Pegida í Þýskalandi. AFP

„Mér er heldur betur búið að vera hótað,“ sagði Margrét Friðriksdóttir, sem komið hefur fram í fjölmiðlum sem meðlimur Pegida-hreyfingarinnar á Íslandi. Hún sagðist meðal annars hafa fengið smáskilaboð frá Allah-o-Akbar sem lögregla sé með til rannsóknar og reki til Afríkuríkisins Tansaníu.

Margrét var gestur Péturs Gunnlaugssonar í síðdegisútvarpi Útvarps sögu á dögunum. Þar sagðist hún hafa orðið fyrir ærumeiðingum á samfélagsmiðlinum Facebook auk þess sem henni hafi bæði verið hótað af Íslendingum og umræddum Allah-o-Akbar - útleggst á íslensku sem Guð er mikill - frá Tansaníu.

Pétur: „Er það rétt, hefur þér verið hótað?“

Margrét: „Já. Mér er heldur betur búið að vera hótað.“

Pétur: „[...] Væntanlega er verið að hóta þér fyrir það sem þú ert að láta frá þér fara á síðunni hjá þér.“

Margrét: „Það er miklu, miklu meira og alvarlegra en hótanir. Ég tek því svona bara með varúð. Ég fékk hótanir frá einhverjum sem kallar sig Allah-o-Akbar og skilaboðin voru „God is great, God will punish you“. Þetta er komið til lögreglunnar og lögreglan er að rannsaka þetta. Mér skilst að þetta sé sent frá Tansaníu. Þannig að í ljósi þess þá virðast nú vera einhverjir menn hér sem eiga sér vitorðsmenn úti í heimi. Ég get ekki séð það öðruvísi.“

Þetta fólk er að skjóta mig

Þá sagðist Pétur einnig hafa heyrt af því að margir deildu á Margréti á Facebook og að hún væri að skoða stöðu sína.

Margrét: „Ég er búin að lenda sko núna í harkalegu, það sem ég vil kalla, neteinelti. Þar sem að fólk á Facebook ...“

Pétur: „Þú ert á Facebook?“

Margrét: „Ég er á Facebook. Þetta er náttúrlega samfélagsmiðill, opinber, og þar hefur mér brugðið harkalega við umræðunni um mig. Út af mínum réttlátu skoðunum sem eiga rétt á sér.“

Hún sagði mikið hatur ríkja, það beinist gegn henni og að hún hafi fengið nóg. „Þetta eru alvarlegar ærumeiðingar og virðist vera að ágerast. Og eins og ég segi, ég segi hingað og ekki lengra. Þetta er svo óboðlegt og svo níðingslegt og viðurstyggileg umræða, að ég hef aldrei orði vitni að svona. [...] Ég er komin með lögfræðing og ætla að leita míns réttar. Í þokkabót er verið að ráðast gegn tjáningarfrelsinu.“

Margrét vísaði sérstaklega til umræðu á facebookhópnum Fjölmiðlanördum og sagðist þar meðal annars hafa verið kölluð skrímsli. Þá hefði karlmaður hótað að sparka í sköflung hennar. „Þetta fólk er að skjóta mig með beinum eða óbeinum hætti. Kannski ekki í bókstaflegri merkingu eins og þeir gerðu þarna í París en þeir eru að gera það með öðrum hætti. Með því að ráðast gegn mér sem persónu, með ærumeiðingum og mannorðsmorði.“

Frétt mbl.is: Hreyfing gegn íslam vex í Þýskalandi

Frétt mbl.is: Öfgahreyfing komin til landsins

Af Facebook-síðunni Pegida Iceland.
Af Facebook-síðunni Pegida Iceland.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert